Njarðvík áfram í bikarnum
UMFN er komið áfram í 16-liða úrslit í Visa-bikar karla í knattspyrnu eftir góðan sigur á 1. deildar-liði Völsungs, 3-2. Leikið var á Njarðvíkurvelli og rigndi mikið framan af.
Heimamenn komust yfir á 18. mínútu þegar Rafn Markús Vilbergsson skoraði úr skalla, þetta var hans fyrsta mark fyrir Njarðvíkinga, en hann kom frá Víði fyrir þetta tímabil. Gestirnir náðu að jafna fyrir leikhlé og stóðu leikar 1-1 þegar venjulegum leiktíma lauk.
Því var gripið til framlengingar sem var fjörug í meira lagi. Michael Jónsson kom Njarðvík yfir á 97. mín og Hafsteinn Ingi Rúnarsson, skoraði þriðja mark þeirra á 109. mínútu. Virtist sigurinn öruggur en mark frá Völsungi á 113 mínútu hleyupti spennu í lokamínúturnar.
32-liða úrslitunum lýkur í kvöld er Keflvíkingar mæta Fjölni, Grindvíkingar Stjörnunni að ógleymdum stórleik Víðis og Íslandsmeistara FH sem fer fram á Garðsvelli.
VF-myndir/Þorgils