Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Njarðvík áfram eftir annan seiglusigur á KR
Föstudagur 6. nóvember 2009 kl. 22:11

Njarðvík áfram eftir annan seiglusigur á KR

Boðið var upp á endurtekið efni í Ljónagryfjunni í kvöld þegar Njarðvíkingar slógu út KR í 32 liða úrslitum Subwaybikarsins en Njarðvík vann KR í Iceland Express deildinni fyrr í vikunni. Lokatölur leiksins voru 90-86 Njarðvíkingum í vil en KR-ingar voru oftar líklegri til að gera út um leikinn en heimamenn gáfust aldrei upp og eru því komnir áfram í 16 liða úrslitin og á Magnús Þór Gunnarsson þar stóran hlut að máli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Magnús gerði 28 stig fyrir Njarðvík í kvöld og setti niður 8 af 11 þriggja stiga skotum sínum. Sum þriggja stiga skotanna hjá Magnúsi fengu áhorfendur til að súpa hveljur og minnti ekki síst á gömlu bomburnar frá Teiti Örlygssyni. Atkvæðamestur í liði KR var Semaj Inge með 19 stig og 7 fráköst en Inge er mikill háloftafugl og gladdi gestsaugað í Ljónagryfjunni í kvöld með nokkrum svakalegum troðslum.


Heimamenn í Njarðvík hófu leikinn í svæðisvörn en þegar líða tók á leikhlutann varð ljóst að þeir skiptu grimmt á milli svæðisvarnar og maður á mann varnar. Njarðvíkingar byrjuðu betur og komust oft inn í sendingar KR en gestirnir voru fljótir að ranka við sér og jafna metin í 7-7. Taflið snérist við og snögglega fóru heimamenn að grýta frá sér boltunum svo óhætt er að segja að liðin hafi verið jafn kærulaus með boltann í upphafi leiks.


Upphafsleikhlutinn var líflegur en staðan að honum loknum var 24-24 en heimamenn hófu annan leikhluta með látum og komust í 30-24. KR-ingar voru þó ekki af baki dottnir og náðu að jafna metin í 30-30. Á þessum tímapunkti fengu þeir Fannar Ólafsson og Tommy Johnson 3 villur í liði KR en það virtist litlu máli skipta því gestirnir sigu framúr.


Ekki leið á löngu uns Finnur Magnússon fékk sína þriðju villu í liði gestanna sem voru komnir í bullandi villuvandræði. Guðmundur Jónsson klóraði í bakkann fyrir Njarðvík þegar hann loks hitti úr þriggja stiga skoti í sjöttu tilraun. Staðan 38-40 en KR-ingar reyndust sterkari og leiddu 39-44 í hálfleik.


Vert er að minnast á að undir lok fyrri hálfleiks gerðist Jón Orri Kristjánsson sekur um alvarlegt brot þegar hann nánast réðst á Hjört Einarsson í Njarðvíkurliðinu sem var kominn upp að körfunni á fullri ferð. Einungis var dæmd venjuleg villa og Hjörtur fór á línuna en það er álit greinarhöfundar að koma beri í veg fyrir viðlíka líkamsárásir á körfuboltavellinum og því hið versta mál að Jóni skyldi ekki refsað með þyngri aðgerðum en venjulegri villu.


Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur í liði KR í hálfleik með 11 stig en þeir Páll Kristinsson og Guðmundur Jónsson voru báðir með 7 stig í Njarðvíkurliðinu.


KR-ingar hófu síðari hálfleik á svæðisvörn og ekki leið á löngu uns Fannar Ólafsson fékk sína fjórðu villu og var hann afar ósáttur við þá ákvörðun dómarans. Fannar hélt á bekkinn en Íslandsmeistararnir létu mótlætið ekki aftra sér og komust í 41-48 með þriggja stiga körfu frá Darra Hilmarssyni.


Hér kemur svo að þætti Magnúsar Gunnarssonar sem fór hamförum í þriðja leikhluta en hann minnkaði muninn í 49-50 með þriggja stiga körfu. Skömmu síðar kom hann Njarðvíkingum í 60-58 með öðrum þrist en þá gerðu gestirnir fimm stig í röð þar sem skotklukkan var við það að renna út. Njarðvíkingar áttu lokaorðið í leikhlutanum þegar Kristján Rúnar Sigurðsson setti niður langdræga eldflaug, spjaldið ofaní, úr erfiðu færi og stóðu leikar 65-66 fyrir KR fyrir fjórða og síðasta leikhluta.


Talsverð harka var í leiknum og var ekkert gefið eftir á lokasprettinum. KR komst í 71-76 þar sem Finnur Magnússon var að frákasta vel fyrir gestina og reyndist heimamönnum erfiður í teignum. Ekki leið á löngu uns maður leiksins lét aftur að sér kveða en Magnús Þór Gunnarsson kom Njarðvík í 79-78 með þriggja stiga körfu þegar fjórar mínútur voru til leiksloka.


Friðrik Erlendur Stefánsson fékk sína fimmtu villu og fljótlega týndust þeir Guðmundur Jónsson og Páll Kristinsson út af í Njarðvíkurliðinu og því þrír byrjunarliðsmenn á bekknum fyrir erfiðan lokasprett hjá Njarðvík.


Semaj Inge stríddi Njarðvíkingum með fjórum stigum í röð í teignum og breytti stöðunni í 83-84 fyrir KR þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka en Magnús Þór lét ekki deigan síga og breytti stöðunni í 86-84 og hvað annað en þriggja stiga karfa þar á ferðinni!


Þegar 37 sekúndur voru til leiksloka fékk Tommy Johnson sína fimmtu villu og var ekki sáttur en hvort hann hafi verið ósáttur við ákvörðun dómarans eða laka eigin frammistöðu skal ósagt látið en þessi sterki leikmaður hefur oft átt betri daga. Tommy lauk leik með 9 stig og 4 fráköst og ljóst að KR-liðið þarf á mun veglegra framlagi frá honum en tölur kvöldsins.


Fannar Ólafsson fór á vítalínuna þegar 29 sekúndur voru til leiksloka og minnkaði muninn í 88-86 og Njarðvíkingar fengu boltann. Brotið var á Jóhanni Ólafssyni þegar 16 sekúndur voru til leiksloka og setti hann bæði vítin niður og kom Njarðvík í 90-86. KR-ingum tókst ekki að skora í næstu sókn og Njarðvíkingar fögnuðu sigri gegn KR annað skiptið í röð á skömmum tíma.


Njarðvíkingar eru því komnir áfram í 16 liða úrslitin en bikarharmsaga KR heldur áfram en liðið hefur ekki orðið bikarmeistari síðan leiktíðina 1990-1991.


Magnús Þór Gunnarsson átti Ljónagryfjuna í kvöld með 28 stig þar sem hann setti niður 8 af 11 þriggja stiga skotum sínum. Þá var Magnús einnig með 4 stoðsendingar og 2 fráköst. Næstur honum í liði Njarðvíkinga var Jóhann Árni Ólafsson sem brilleraði líka á lokasprettinum líkt og í deildarleiknum gegn KR. Jóhann gerði 18 stig fyrir Njarðvík og tók 5 fráköst.


Semaj Inge var með 19 stig og 7 fráköst í liði KR en þeir Finnur Atli Magnússon og Brynjar Þór Björnsson komu honum næstir með 14 stig en Finnur var auk þess með 9 fráköst.


Texti: [email protected]


Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson