Njarðvík 1-0 Skallagrímur
Njarðvíkingar báru sigur úr býtum gegn Skallagrím, 89-70, í fyrsta úrslitaleik liðanna í Iceland Express deild karla í dag. Staðan er því 1-0 Njarðvíkingum í vil en næsti leikur liðanna fer fram í Borgarnesi á mánudag.
George Byrd kom Skallagrímsmönnum á sporið með þriggja stiga körfu og voru gestirnir frá Borgarnesi ansi sprækir í upphafi leiks. Byrd varð þó snemma frá að víkja með 3 villur eftir um 5 mínútna leik og setti það nokkuð mark á leik Skallagríms. Borgnesingar höfðu þó yfir að loknum 1. leikhluta 19-23.
Í öðrum leikhluta treysti Valur Ingimundarson á minni spámenn í Skallagrímsliðinu og setti unga og efnilega pilta inn á en þá gengu Njarðvíkingar á lagið og breyttu stöðunni í 43-32 og þannig var staðan í hálfleik.
Í þriðja leikhluta gekk hvorki né rak hjá Skallagrím þar sem allt virtist detta niður hjá Njarðvíkingum í sókninni og var vörn heimamanna þétt og góð. Njarðvíkingar gerðu út um leikinn í 3. leikhluta sem lauk í stöðunni 65-52 Njarðvík í vil þar sem Guðmundur Jónsson og Egill Jónasson fóru á kostum.
Borgnesingar hvíldu sína lykilmenn í 4. leikhluta sem og Njarðvíkingar en gestirnir voru aldrei líklegir til þess að jafna leikinn. Ragnar Ragnarsson átti ljómandi góða innkomu af bekknum hjá Njarðvíkingum en Brenton Birmingham var helsta driffjöður Njarðvíkinga í leiknum með 14 stig, 6 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Hjá Skallagrím gerði Axel Kárason 16 stig.
Liðin mætast í öðrum leik úrslitanna á mánudag og fer sá leikur fram í Borgarnesi en
sætaferðir verða í boði SBK og Sparisjóðsins í Keflavík frá Ljónagryfjunni í Borgarnes.
VF-myndir/ JBÓ