Njarðvík - KR vol. 2 í kvöld
Nauðsynlegt að jafna metin!
Annar leikur Njarðvíkur og KR í undanúrslitaeinvígi Domino´s deildar karla fer fram í Ljónagryfjunni í kvöld.
Liðin mættust síðasta mánudag í DHL höllinni þar sem að KR-ingar settu Njarðvíkinga i spennitreyju bróðurpart leiks og sigldu heim öruggum sigri þar sem að liðið sýndi að það er engin tilviljun að liðið varð deildarmeistari með yfirburðum. Stefan Bonneau komst hvorki lönd né strönd í sóknarleik Njarðvíkur og án hans er erfitt að sjá fyrir sér að Njarðvíkingar eigi möguleika gegn vel smurðu KR liði þar sem að dýptin er mikil og þess utan er liðið að leika án síns besta leikmanns, Pavel Ermoliskij.
Njarðvíkingar eru þó þekktir fyrir allt annað en að gefast upp og er óhætt að reikna með því að liðið komi til með að klóra og naga sig í gegnum fjóra leikhluta og jafnvel lengur ef það er það sem þarf til að ná í sigur í kvöld.
Áhangendur eru minntir á að mæta tímanlega í kvöld þar sem að fastlega er gert ráð fyrir að það seljist upp í Ljónagryfjuna.
Leikurinn hefst á slaginu 19:15.