Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Níundi deildarósigurinn hjá Njarðvík í röð
Þriðjudagur 25. janúar 2011 kl. 09:06

Níundi deildarósigurinn hjá Njarðvík í röð

Deildarkeppninni í Iceland Express deild kvenna lauk í gærkvöldi með viðureign KR og Njarðvíkur í DHL-Höllinni. Julia Demirer lék sinn fyrsta leik fyrir Njarðvík í kvöld en það kom ekki að sök því KR-ingar höfðu sigur, 70-60. Chazny Morris gerði 16 stig fyrir KR en Shayla Fields var með 19 stig og 5 fráköst.

KR setti fimm af átta þristum sínum í fyrsta leikhluta og þar var Margrét Kara Sturludóttir með heita hönd en hún kláraði fjóra þrista í jafn mörgum tilraunum og var með 14 stig hjá KR eftir fyrstu tíu mínútur leiksins. Varnarleikurinn var í aðalhlutverki í upphafi leiks þó það hafi reyndar tekið Njarðvíkinga um það bil sjö mínútur að fá dæmda á sig villu. Með góðri nýtingu leiddi KR 21-14 eftir fyrsta hluta og tókst það með því að taka aðeins tvö fráköst fyrstu átta mínútur leiksins.


Shayla Fields rankaði aðeins við sér í öðrum leikhluta í liði gestanna og þá varð meiri sóknarbroddur í grænum. KR var þó áfram í bílstjórasætinu og komust í 35-24 með grimmri vörn sem olli því að Njarðvíkursóknirnar urðu oftar en ekki stirðar og á köflum bara vandræðalegar. Í tvígang miskunnsömuðu dómarar leiksins sig yfir Njarðvíkinga þar sem klárlega var brotið á fimm sekúndna reglunni. Leikmaður má ekki halda á bolta ódrippluðum lengur en í fimm sekúndur þegar boltinn er í leik og hans er vandlega gætt af varnarmanni en í þessi tvö skipti virtist vera um heila eilífð að ræða.


KR lokaði fyrri hálfleik í stöðunni 39-29 þar sem Margrét Kara var stigahæst í heimaliðinu með 14 stig og Chazny Morris með 12. Hjá Njarðvíkingum var Shayla Fields með 10 stig og Julia Demirer 9. Þó Njarðvík hefði haft betur í frákastabaráttunni í fyrri hálfleik þá dugði það lítið.


Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir breytti stöðunni í 44-33 KR í vil með þriggja stiga körfu og áfram hélt því döpur dekkun gestanna úti á velli. KR þakkaði bara fyrir sig með því að láta skotunum rigna yfir Njarðvíkinga.


Þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta komu Njarðvíkingar muninum undir tíu stig og þar féll smávægilegur sálfræðimúr og gestirnir tóku á rás. Með Margréti Köru Sturludóttur utan vallar náði Njarðvík 7-0 áhlaupi og minnkaði muninn í 45-40. Njarðvík vann leikhlutann 13-18 en um leið og Kara kom inn í liði gestanna var eins og meira öryggi færðist í leik heimaliðsins.


Shayla Field reyndi svo þvingað flautuskot sem rataði ekki rétta leið hjá Njarðvíkingum og staðan því 52-47 KR í vil fyrir lokasprettinn en þetta þvingaða skot hjá Shaylu var síður en svo það fyrsta í kvöld.


Vesturbæingar lögðu grunninn að sigri sínum snemma í fjórða leikhluta með 9-4 byrjun. Árnína Lena Rúnarsdóttir reyndi að klóra í bakkann fyrir gestina en hún átti fína spretti í kvöld. KR hélt þó hárrétt á spilunum, hélt Njarðvík fjarri með fínni vörn og fóru oft ansi illa með Njarðvíkurteiginn þó hann væri orðin þéttari til muna frá því sem áður var.


Margrét Kara sem hóf leikinn með 14 stig í fyrsta leikhluta skoraði ekki aftur fyrr en sjö sekúndur voru til leiksloka er hún setti niður eitt víti og lauk því leik með 15 stig. Sjálfstraust KR í leiknum var þó aldrei meira en þegar hún var inni á vellinum enda mikill baráttujaxl. Lokatölur reyndust 70-60 KR í vil þar sem Njarðvíkingar voru oft líklegir til afreka en KR hélt þeim niðri á hárréttum augnablikum.


Chazny Morris gerði 16 stig hjá KR og tók 6 fráköst, Margrét Kara var með 15 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar og Signý Hermannsdóttir gerði 11 stig og tók 6 fráköst. Hjá Njarðvíkingum var Shayla Fields með 19 stig og 5 fráköst, Dita Liepkalne gerði 13 stig og tók 10 fráköst og Árnína Lena Rúnarsdóttir gerði 12 stig. Julia Demirer gerði 9 stig og tók 14 fráköst og ljóst að hún á eftir að komast betur inn í leik þeirra grænu en hún lenti á Klakanum um helgina.




Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – [email protected] – Margrét Kara Sturludóttir sækir að körfu Njarðvíkinga í leiknum.

Umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024