Níu marka leikur á Blue-vellinum
Markasúpa þegar Reynir tók á móti Einherja
Reynir hefur verið yfirburðalið í 3. deild karla í sumar. Fyrsta tap Reynismanna kom í síðustu umferð gegn Augnabliki en þeir bættu fyrir það með stórsigri á Einherja í dag.
Það var Elton Barros sem skrúfaði frá markasúpunni þegar hann skoraði á 4. mínútu, Ante Marcic jók muninn í 2:0 á 11. mínútu.
„Hann á völlinn!“
Eins og áður hefur komið fram þá „á“ Magnús Sverrir Þorsteinsson Blue-völlinn. Nú var komið að hans þætti í leiknum og Magnús skoraði þrennu fyrir leikhlé (12', 23' og 40'). Einherja tókst að svara í tvígang (14' og 39') og staðan 5:2 í leikhléi.
Síðari hálfleikur var ekki eins fjörugur en þó bættu Reynismenn við tveimur mörkum. Þar voru að verki þeir Ási Þórhallsson (82') og Hörður Sveinsson (85'). Stórsigur Reynis því 7:2 og þeir sitja sem fastast á toppi deildarinnar.