Nigel yfirgefur Njarðvíkinga
Njarðvíkingar vilja kjöt í teiginn
Nigel Moore mun leika sinn síðasta leik í Dominos´s deild karla með Njarðvíkingum í kvöld gegn Stjörnunni en honum hefur verið sagt upp störfum hjá liðinu. Karfan.is greinir frá en þar kemur fram að Njarðvíkingar séu á höttunum eftir öflugum manni sem geti látið finna fyrir sér í teignum.
Að sögn Páls Kristinssonar varaformanns KKD Njarðvíkur þá þótti Njarðvíkingum sárt að fara í þessar aðgerðir. „Nigel er gríðarlega góður leikmaður og ekki síður liðsmaður jafnt utan sem innan vallar og því var þessi ákvörðun ekki auðveld fyrir okkur,“ sagði Páll í viðtali við Karfan.is
„Hann tók þessum fréttum af slíkri fagmennsku að ég hef aldrei orðið vitni af öðru eins. Hann skilur okkar afstöðu fullkomlega þó svo að hann hefði auðvitað viljað klára þetta með okkur. Það sýnir líka hversu mikill fagmaður hann sé að hann vilji taka síðasta leikinn með okkur í kvöld.“ sagði Páll enn fremur.
Nigel sem var einnig þjálfari kvennaliðs UMFN mun því hverfa á brott í því starfi einnig og ekki er orðið ljóst hvernig þau mál munu þróast en liðið er sem stendur á botni Dominos deildarinnar með 4 stig. Nánar á Karfan.