Nettómótið - Stærsta körfuboltamót Íslands í Reykjanesbæ um helgina
Stærsta körfuknattleiksmót sem haldið er á Íslandi ár hvert - Nettómótið - fer fram nú um helgina 3.-4. mars. Mótið, sem er jafnframt stærsti íþróttaviðburðurinn í Reykjanesbæ, er fyrir drengi og stúlkur fædd árið 2000 og síðar. Nettómótið er stærsta einstaka verkefnið sem barna- og unglingaráð körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur - KarfaN - standa fyrir en með barna- og unglingaráðunum félaganna er mikið og gott samstarf.
Í ár hafa 181 lið skráð sig til leiks frá 22 félögum og lætur nærri að um 1.200 keppendur mæti til leiks. Leiknir verða 420 leikir á tæpum tveimur dögum á 13 völlum í fimm íþróttahúsum. Allir keppendur sem sækja mótið fara jafnframt í bíó, sund, pizzuveislu, heimsækja Skessuna í hellinn hennar, þræða lengsta hoppukastalann, mæta á magnaða kvöldvöku með þekktum skemmtikröftum og ýmislegt fleira enda er Nettómótið jafnframt fjölskylduhátíð þar sem allir eru sigurvegarar.