Nesprýði býður á leik Reynis S. og Hattar
Reynir S. taka á móti lið Hattar frá Egilsstöðum á Sparisjóðsvellinum á morgun í 2. deild karla. Leikurinn hefst kl. 14:00. Frítt er á völlinn í þetta skiptið í boði Nesprýðis og ættu Reynismenn að nýta sér það kostaboð til að fjölmenna og veita Reyni nauðsynlegan stuðning í lokabaráttu deildarinnar.
Árangurinn hjá gestunum í Hetti hefur verið upp og ofan í sumar líkt og hjá Reyni. Þeir sitja í 6. sæti deildarinnar með 22 stig, þremur sætum og fimm stigum fyrir ofan heimamenn. Höttur vann góðan 2-0 heimasigur gegn Völsungi í síðasta leik, en steinlá 0-4 gegn Aftureldingu á Egilsstöðum í leiknum þar á undan. Þjálfari Hattar, Njáll Eiðsson, tekur út leikbann á laugardaginn og má því ekki stjórna liði sínu á Sparisjóðsvellinum.
Höttur tók á móti Reyni á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum fyrr í sumar þar sem heimamenn unnu öruggan 4-1 sigur í leik sem var jafnari en tölurnar gefa til kynna. Serbinn Novak Popovic skoraði þá eina mark Reynis, en þeir Garðar Már Grétarsson, Þórarinn Máni Borgþórsson, Aljosa Gluhovic og Vilmar Freyr Sævarsson skoruðu fyrir Hött.
Reynismenn þurfa nauðsynlega að ná sér í stig í næstu leikjum til að forðast falldrauginn. Nesprýði leggur sitt af mörkum í þerri baráttu með því að bjóða á leikinn á laugardaginn. Stuðningmenn Reynisleiksins eru hvattir til að nýta sér það kostaboð og fjölmenna á leikinn.
www.reynir.is
VF-MYND/Þorgils: Leikmenn Reynis S. mæta Hetti frá Egilsstöðum á morgun.