Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nes með yfir 100 iðkendur á Suðurnesjum
Guðmundur Sigurðsson, formaður NES og kyndilhlaupari hjá lögreglunni. VF-myndir: Hilmar Bragi
Sunnudagur 14. desember 2014 kl. 18:19

Nes með yfir 100 iðkendur á Suðurnesjum

– Lögreglan vekur athygli á íþróttum fatlaðra með kyndilhlaupi

NES er íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum og eina íþróttafélagið fyrir fatlaða á svæðinu. Í dag eru um 100 virkir iðkendur hjá félaginu og starfið þar vex ár frá ári. Í dag eru í boði fimm íþróttagreinar hjá félaginu, sund, boccia, frjálsar íþróttir, lyftingar og knattspyrna. Iðkendum hjá NES gefst kostur á að vera í öllum greinum eða stökum greinum en greiða alltaf sama þátttökugjald. Rannsóknarlögreglumaðurinn Guðmundur Sigurðsson er formaður félagsins og hann segir í samtali við Víkurfréttir að öllum sé frjálst að æfa hjá félaginu.

Með framkvæmdastjóra og sjö þjálfara
NES er með sjö þjálfara á sínum snærum og því er rekstur félagsins orðinn eins og fyrirtæki. Nýlega var ráðinn framkvæmdastjóri til félagsins til reynslu í hálft ár til að halda utan um sívaxandi starf. Að sögn Guðmundar fjármagnar félagið sig með styrkjum, æfingagjöldum og samstarfssamningum. Það verður m.a. hlutverk nýs framkvæmdastjóra að ræða við fyrirtæki og sveitarfélög um framlög til starfsins.



- Þið eruð nýkomin frá Malmö í Svíþjóð þar sem þið voruð með 50-60 manna hóp. Hvernig fjármagnið þið svona ferðalög?
„Þau sem fara í ferðir með félaginu afla sjálf fjár til fararinnar en félagið sjálft leggur ekki í kostnað. Krakkarnir eru því duglegir að stunda fjáraflanir og borga ferðina alfarið sjálf. Ef allir sem vilja fara í svona ferðalög leggjast á eitt, þá er þetta hægt,“ segir Guðmnudur.

Nes er með mjög færa þjálfara á sínum snærum. Í sundinu er t.a.m. Ingi Þór Einarsson með þjálfun fyrir NES en hann er jafnframt landsliðsþjálfari í sundi.

„Með góðum þjálfurum og miklum áhuga, þá næst góður árangur og þau sem eru að ná langt á heimsvísu hafa lagt gríðarlega vinnu í að ná þeim árangri. Við erum t.d. með einn núna sem er að gera gríðarlega góða hluti, Arnar Helgi Lárusson, í hjólastóla-race. Með mikilli æfingu og aga hjá honum sjálfum, þá hefur honum tekist að ná langt“.

Iðkendur frá öllum Suðurnesjum
Iðkendur hjá NES koma frá öllum sveitarfélögum Suðurnesja en æfingar fara fram í Reykjanesbæ. Boccia er stærsta greinin sem er stunduð innan félagsins en sundið er hins vegar sú grein sem er í hvað mestum vexti og vekur athygli hvað yngri iðkendum er að fjölga. Iðkendum hefur fjölgað það mikið í sundinu að brugðið var á það ráð að skipta upp í hópa. Áður voru yngri og eldri hópar en nú eru yngri, eldri og miðstig. Þá hafa þjálfarar einnig skipt iðkendum eftir getu þvert á aldur. Þá býður NES upp á svokallað garpasund fyrir 25 ára og eldri. Það er vel sótt. Garpasundið fer fram í sundlaug Heiðarskóla og er í raun að sprengja utan af sér aðstöðuna þar.

Langstærsti hópurinn sem æfir hjá NES er með þroskahömlun, kallað S-14, og það sama á við um önnur íþróttafélög fatlaðra á landinu. Það eru ekki margir með líkamlega eða sjáanlega fötlun sem stunda æfingar hjá félaginu.



Kyndilhlaup lögreglunnar
Um síðustu helgi hélt NES í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra og Knattspyrnusamband Íslands Íslandsleika Special Olympics í fótbolta. Keppt var í blönduðum liðum þar sem eru 3 ófatlaðir og 4 fatlaðir en keppnin er hluti af alþjóðlegu verkefni - Unified football.  Auk keppenda frá aðildarfélögum ÍF voru meðspilarar frá lögreglunni, Knattspyrnufélaginu Víði í Garði og 4. flokki Keflavíkur. Þá voru dómarar frá KSÍ. Með þessu fyrirkomulagi er vilji til að skapa frekara samstarf milli fatlaðra og ófatlaðra inni á íþróttavellinum og á æfingum. Þess má geta að NES varð Íslandsmeistari Special Olympics í knattspyrnu á þessu móti.

Guðmundur starfar sem rannsóknarlögreglumaður hjá Lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum, auk þess að vera á kafi í félagsstarfinu hjá NES. Um síðustu helgi stóðu Guðmundur og félagar hans innan lögreglunnar fyrir svokölluðu kyndilhlaupi lögreglu í tengslum við Íslandsleika Special Olympics í fótbolta sem fram fóru í Reykjaneshöllinni. Special Olympics voru stofnaðir af Kennedy-fjölskyldunni árið 1968 í því skyni að veita þroskahömluðum tækifæri til íþróttaiðkunar og fjölskyldan veitir leikunum ennþá forstöðu. Það var síðan árið 1981 sem lögreglustjóri í Bandaríkjunum vildi vekja enn frekari athygli á Special Olympics og fékk því lögreglumenn til standa að og sjá um kyndilhlaup fyrir og til stuðnings Special Olympics. Hlaupið náði til Evrópu 1988 og Ísland er svo fyrsta norðurlandaþjóðin til að taka upp kyndilhlaupið.



Special Olympics á Íslandi hóf samstarf við lögregluna árið 2013 en lögreglumenn hafa verið í alþjóðasamstarfi við Special Olympics samtökin í fjölda ára og hlaupið kyndilhlaup fyrir Evrópu- og alþjóðaleika. Lögreglumenn hlaupa undir merkjum LETR (Law Enforcement Torch Run) og í september fóru fram Evrópuleikar Special Olympics í Belgíu þar sem m.a. voru þátttakendur frá NES. Þá fóru t.a.m. tveir lögreglumenn frá Suðurnesjum þangað og hlupu kyndilhlaup í einum sextán borgum. Þetta voru þeir Guðmundur Sigurðsson og Gunnar Ólafur Schram. Á fimm dögum hlupu þeir samtals 100 kílómetra og 16 borgir og bæi í Belgíu.

Guðmundi var boðið á Evrópuráðstefnu LETR í Belgíu árið 2013 en Guðmundur hefur sterk tengsl við Special Olympics í gegnum formennsku sína hjá NES og hefur sonur hans keppt á Evrópu- og alþjóðaleikum Special Olympics. Þá er Guðmundur lögreglumaður og er með tengingu í gegnum LETR við leikana og er málefnið hugleikið að eigin sögn. Fyrsta kydilhlaupið var í Reykjanesbæ í nóvember í fyrra og svo aftur í Reykjavík í vor. Þriðja hlaupið var svo í Reykjanesbæ um liðna helgi í tengslum við mótið í Reykjaneshöllinni. Nú eru Íslandsleikar Special Olympics haldnir tvisvar á ári og er stefnt að því að hlaupa alltaf við setningu þeirra. Special Olympics veitir þroskahömluðum tækifæri til íþróttaiðkunar en það fær ekki sömu umfjöllun og íþróttir fatlaðra og ófatlaðra og með hlaupinu vilja lögreglumenn draga athygli að Special Olympics. „Þetta er gott fyrir leikana og þarna eru lögreglumenn að gefa af sér til samfélagsins,“ segir Guðmundur.

Með kyndil lögreglu og keppendur frá NES til LA
Næsta sumar fara alþjóðaleikar Special Olympics fram í LA í Bandaríkjunum. Þangað fer hópur níu þátttakenda frá NES sem mun keppa í knattspyrnu, boccia, frjálsum, sundi og golfi og þar af eru fimm frá NES sem munu skipa ellefu manna landsliði í fótbolta auk þess sem knattspyrnuþjálfari Nes fer út með landsliðinu. Guðmundur segir að það færist í aukana að NES taki þátt í alþjóðlegum verkefnum hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Meðal annars er leitað til NES með þjálfara fyrir þessi verkefni og segir Guðmundur það jákvætt.

Guðmundur mun einnig fara í ferðina sem fulltrúi íslensku lögreglunnar og hlaupa með kyndilinn um Kaliforníu í aðdraganda leikanna ásamt 100 lögreglumönnum víðs vegar að úr heiminum. Guðmundur hefur engan bakgrunn í hlaupi og segir það talsvert átak að takast á við þessi hlaup erlendis. Nú þurfi hann að vera í góðu formi til að takast á við þetta hlaupaverkefni ofan á allt annað.



Mót um hátíðirnar
Nú um jól og áramót verða haldin mót í flestum greinum hjá NES og koma önnur félög fatlaðra til þátttöku.  Til að mynda mun Þjótur frá Akranesi etja kappi við Nes í boccia og þá verður nú haldið fótboltamót í þriðja skiptið þar sem NES og Ösp senda lið til þátttöku ásamt liðum frá Lögreglunni á Suðurnesjum og frá Brunavörnum Suðurnesja. Milli hátíða verður haldið sundmót og þangað er boðið félögum af höfuðborgarsvæðinu. Nýjasta greinin innan NES er lyftingar en lyftingamót verður skoðað fljótlega á nýju ári.

Guðmundur segir að keppnir og mót sé einungis einn þáttur starfsseminnar, mikilvægt sé að hafa það í huga að þáttaka í keppnum er ekki aðalmálið.  Að vera hluti af heild skiptir mun meira máli og taka þátt í því samfélagi sem rammast innan íþróttafélagsins og efla félagsfærni einstaklingsins.  Starfsemin byggist upp á því að skapa fötluðum tækifæri til þátttöku í íþróttastarfi og með þeim hætti að efla einstaklinginn líkamlega, andlega og félagslega.   

Viðtal: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024