Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nágrannaslagur Keflavíkur og Grindavíkur í kvöld
Gunnar Már Gunnarsson og Sigurður Garðarsson.
Mánudagur 7. maí 2018 kl. 06:00

Nágrannaslagur Keflavíkur og Grindavíkur í kvöld

Nágrannaslagur af bestu gerð verður í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á mánudagskvöld þegar Keflvíkingar taka á móti Grindvíkingum í annarri umferð Íslandsmótsins. Grindvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik gegn FH en Keflvíkingar gerðu jafntefli við Stjörnuna. Hvað gerist í kvöld í Keflavík er óvíst en formenn knattspyrnudeilda Keflavíkur og Grindavíkur sjá fyrir sér jafnan og spennandi leik og lofa geggjuðum grannaslag. Við hittum Sigurð Garðarsson og Gunnar Már Gunnarsson, á Nettóvellinum í Keflavík í síðustu viku. Neðst í viðtalinu má sjá viðtalið við þá kappa úr Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta.

Nú eruð þið nýteknir við formennsku knattspyrnufélaganna, hvernig er að vera nýr formaður?
Sigurður: Það er frekar nýlegt fyrir mér en ég hef gaman af þessu, þetta er stórt félag með ríka hefð, mikill siguvilji, gott fólk í kringum félagið og ég er mjög spenntur.
Gunnar: Þetta verður mjög krefjandi og skemmtilegt, ég datt inn í þetta pínu óvænt en maður verður að taka þessu sem hverju öðru verkefni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig gengur að nálgast styrki fyrir félögin?
Gunnar: Þegar maður er nýkominn inn í þetta þá veit maður það ekki alveg upp á hundrað en við vorum að ræða þetta hér áðan en það er alltaf erfitt að nálgast peninga.
Sigurður: Þetta er af miklu leyti til haldið uppi af stuðningsmönnum, fyrirækjum, sveitarfélögunum og svo líka af aðdáendum, þetta gengur hægt en vel en ég held að það skipti mestu máli að vera jákvæður, hafa trú á verkefninu og fá fleiri í lið með okkur.

Er fólk duglegt að bjóða sig fram sem sjálfboðaliðar fyrir félögin eða gengur almennt vel að fá sjálfboðaliða í vinnu?
Sigurður: Hjá okkur er það þannig, allir sem við leitum til taka vel í það og við erum að safna liði, því fleiri hendur sem vinna verkefnið, því færri verk þarf hver og einn að sinna.
Gunnar: Þetta er mikið af sama fólkinu sem er að sinna þessu, það eru rúmlega fimmtíu manns sem koma að þessu hjá okkur á hverjum leik og við erum afar þakklát fyrir þá sem bjóða sig fram í þetta.

Það eru miklar umgjarðir í kringum Pepsi-deildina en hvernig fer undirbúningur fram fyrir æfingar, leiki og annað?
Sigurður: Þetta er heilmikil umgjörð og það er alveg rétt sem Gunnar er að segja, það eru margir sem koma að einum leik, undirbúningurinn er fundir, fá fólk, Pepsi-deildin gerir miklar kröfur en við höfum verið fjarri henni í of langan tíma og kröfurnar eru alltaf að aukast, bæði á aðstöðu, öryggi og auglýsingar fyrir leikina. En við höfum bara gaman af því.

Samkvæmt tölfræðinni hafa tíu síðustu viðureignir liðanna farið þannig að Keflavík hefur unnið sex leiki, Grindavík þrjá og eitt jafntefli, hvernig fer leikurinn?
Sigurður: Það verða sjö sigrar hjá Keflavík á mánudaginn.
Gunnar: Ég er mikill tölfræðimaður og 6-1-4 kemur oft upp í tölfræði í fótbolta, þannig að það er mjög líklegt að það verði þrjú stig fyrir okkur.

Nú hefur auglýsingin frá Stöð 2 sport slegið í gegn þar sem að Höddi Magg segir að Keflvíkingum muni takast þetta án Sparisjóðsins og að Grindavík sé búið að selja 2500 ársmiða, er eitthvað til í þessu?
Sigurður: Já við höfum alveg komist að hingað til án Sparisjóðsins, en Landsbankinn hefur verið dyggur stuðningsaðili, við erum líka svo heppin að vera með sterkar bílaleigur sem hjálpa okkur að kljúfa þetta.
Gunnar: Við vorum að fara yfir þetta og Höddi er nánast með þetta rétt, það eru rúmlega 2500 ársmiðar seldir.

Eitthvað sem þið viljið segja að lokum?
Sigurður: Keflavík eru bestir, jafnvel betri en nágrannar sínir úr Grindavík, annars verður grillað fyrir leik og hoppukastalar og fleira skemmtilegt, mæli með að allir mæti.
Gunnar: Mæta á leikinn, styðja Grindavík og styðja sitt lið.