Nágrannaslagur í kvennakörfunni í Njarðvík í kvöld
Njarðvíkurstelpur í meistaraflokki kvenna taka á móti grönnum sínum úr Keflavík b í kvöld kl. 19.15 í Ljónagryfjunni. Búast má við hörku leik, liðin hafa unnið sinn leikinn hvort í innbyrðisviðureignum sínum í 1. deild kvenna í vetur: Liðin eru efst og jöfn að stigum í deildinni en Keflavík er með betra stigahlutfall (markahlutfall). Keflavíkurstelpur b, sem að mestu eru skipaðar hinum svakalega '93 árgangi, töpuðu mjög óvænt síðasta leik sínum gegn Skallagrími. Þjálfari þeirra, Jón Guðmundsson körfuknattleiksdómari, hefur örugglega lesið dömunum pistilinn eftir þann leik og má því búast við þeim „bandvitlausum“ gegn stelpunum okkar í kvöld.
„Það hefur verið stígandi hjá okkur í vetur og liðið oft verið að spila reglulega vel“, segir Unndór Sigurðsson þjálfari í stuttu spjalli við heimasíðu félagsins, umfn.is.
„Njarðvík hefur á að skipa mörgum gríðarlega efnilegum stelpum sem eiga mikla framtíð fyrir sér. Þetta er samt algjörlega undir þeim sjálfum komið. Ég og stjórnin sköpum bara vettvanginn fyrir þær og umgjörð. Ef þær eru duglegar á næstu mánuðum, standa þeim í raun allar dyr opnar. Fyrir utan stórt tap gegn Keflavík b fyrr í vetur hefur allt verið á áætlun, ef svo má segja. Við vorum allt of værukær í leiknum gegn Keflavík, allt að því hrædd á köflum. Sérstaklega við þær Bryndísi og Marín sem eru að stíga upp úr meiðslum og leiku þess vegna með b-liðinu. Þetta var svo sem bara fínt fyrir stelpurnar að kynnast því að leika gegn öflugum leikmönnum úr efstu deild. Það þurfa þær að gera ef það tekst sem við ætlum okkur, að komast upp í úrvalsdeild. Það var síðan allt annað að sjá liðið gegn KR í bikarkeppninni. Þrátt fyrir tap voru mikil batamerki. Síðasti leikur, gegn Þór Akureyri, var sá besti í vetur hjá okkur. Í þeim leik fóru stelpurnar á kostum og gerðu nánast allt sem fyrir þær var lagt og spiluðu í raun loks sem lið", sagði Unndór ennfremur.
Það verður því spennandi að sjá hvort framhald verði á góðum leik hjá UMFN gegn Keflavík b í kvöld. Umfn.is hvetur stuðningsfólk liðanna til þess að fjölmenna í Ljónagryfjuna í kvöld og fylgjast með leikmönnum framtíðarinnar í hörku leik.
mynd: Sigurlaug fyrirliði UMFN stúlkna er reynslubolti og það mun því mæða mikið á henni gegn Keflavíkurstúlkunum.