Nágrannaslagur í bikarúrslitum: Keflvíkingar sigruðu Snæfell
Keflvíkingar sigruðu Snæfell rétt í þessu í undanúrslitum Maltbikarsins í körfuknattleik og því er ljóst að nágrannaslagur af bestu gerð verður í bikarúrslitunum, þar sem Njarðvíkingar sigruðu Skallagrím fyrr í kvöld.
Leikur Keflvíkinga og Snæfells var hörku spennandi og gríðarlega jafn. Eftir framlengingu sigruðu Keflvíkingar með tveimur stigum, 83-81.
Brittanny Dinkins var best í liði Keflavíkur í kvöld en hún skoraði í heildina 35 stig fyrir liðið. Þá var hún einnig með 12 fráköst og 5 stoðsendingar. Birna Valgerður skoraði 15 stig og átti 5 fráköst og Embla Kristínardóttir skoraði 9 stig og átti 9 fráköst.
Suðurnesjamenn munu því næstkomandi laugardag keppa um bikarmeistaratitilinn.