Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nágrannaslagur GAIS og Gautaborgar
Þriðjudagur 2. maí 2006 kl. 11:34

Nágrannaslagur GAIS og Gautaborgar

„Stemmningin hérna er góð fyrir leikinn í dag og leikurinn hefur verið auglýstur í bak og fyrir í borginni,“ sagði Jóhann B. Guðmundsson í samtali við Víkurfréttir en Jóhann og félagar hans í GAIS í sænsku úrvalsdeildinni taka á móti erkifjendum sínum í IFK Gautaborg í dag.

Hjálmar Jónsson, fyrrum leikmaður Keflavíkur eins og Jóhann, leikur með IFK Gautaborg en hann verður ekki með í leiknum í dag sökum meiðsla. „Það hefði verið skemmtilegra að mæta Gautaborg með Hjálmar innanborðs en hann verður bara með næst þegar liðin mætast í seinni leiknum,“ sagði Jóhann. Hjálmar hefur átt við þrálát nárameiðsli að stríða í um eitt ár en að sögn Jóhanns er Hjálmar farinn að æfa að nýju.

Nágrannaslagur GAIS og IFK Gautaborgar fer fram á sameiginlegum leikvangi liðanna, Nye Ullevi, sem tekur um 40 þúsund manns í sæti og spáir Jóhann því að um 30 þúsund manns mæti á leikinn.

„Við höfum verið að skapa okkur færi í undanförnum leikjum en höfum ekki náð að skora, það kemur bráðlega,“ sagði Jóhann. Aðalsóknarmaður GAIS, James Keene, verður í leikbanni í kvöld en hann er á láni frá enska liðinu Portsmouth. Jóhann var þó hvergi banginn og var spenntur fyrir leiknum en hann verður í byrjunarliðinu í kvöld á sínum stað, vinstri kantinum.

VF-mynd/ Hjálmar og Jóhann þegar Jóhann lék með Örgryte. Hjálmar er t.v. og Jóhann t.h.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024