Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Nágrannaslagur af bestu gerð í Grindavík í kvöld!
Mánudagur 28. júní 2004 kl. 13:08

Nágrannaslagur af bestu gerð í Grindavík í kvöld!

Í kvöld mætast Grindvíkingar og Keflvíkingar í fyrri Suðurnesjaslag sumarsins í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Leikurinn fer fram í Grindavík.

Síðasti leikur liðanna var sögulegur í meira lagi þar sem Keflavíkingar unnu stórsigur í Grindavík, 1-4. Það dugði þó ekki til því þeir misstu sæti sitt í úrvalsdeildinni þrátt fyrir það.
Hins vegar er saga síðustu ára á bandi Grindvíkinga vegna þess að Keflvíkingar höfðu fyrir þann leik ekki unnið Grindavík síðan 1998. Frá því að Grindvíkingar kepptu fyrst í efstu deild sumarið 1995 hafa liðin mæst 16 sinnum og hafa Grindvíkingar unnið 7 sinnum og Keflvíkingar 6 sinnum. Þrisvar hafa liðin skilið jöfn að skiptum og markatalan er 24-22, Grindvíkingum í hag.

Hólmar Örn Rúnarsson hefur verið með öflugri leikmönnum Keflavíkurliðsins í sumar  og segir hann mikla tilhlökkun ríkja fyrir þennan leik. „Það er alltof langt síðan við kepptum við þá. Það er allt öðruvísi að fara inn í leiki við Grindavík því að maður þekkir næstum alla þar og það skemmir ekki stemmninguna að þetta verður sjónvarpsleikur“. Hólmar leggur einnig áherslu á að þeir megi alls ekki við því að missa af stigum ef þeir ætli að halda sér í toppbaráttunni. „Við megum ekki tapa stigum núna þar sem að næstu leikir munu segja til um hvar við endum í deildinni“.
Hann er þó hvergi smeykur og spáir sínum mönnum sigri 2-0.

Gestur Gylfason hjá Grindavík gerir sér mæta vel grein fyrir mikilvægi leiksins og hvað er í húfi þar sem hann er borinn og barnfæddur Keflvíkingur og lék einnig með Keflavík í áraraðir. „Jú, auðvitað er furðulegt að mæta Keflavík, en þetta verður gaman. Þetta er sprækt lið og leikurinn verður ekki auðveldur“. Gestur segir alla gera sér grein fyrir mikilvægi leiksins. „Ef illa fer hjá okkur í þessum leik erum við að horfa upp á fallbaráttu í sumar. Ég er bara að vona að við förum að hitta á góða leiki sem fyrst, en við verðum í góðum gír“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024