Næst fæstir áhorfendur á Keflavíkurleikjum í Pepsi-deildinni
Áhorfendafjöldi á leikjum Keflavíkur í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í sumar er sá næst lægsti í deildinni en 740 manns hafa að meðaltali sótt 3 heimaleiki liðsins í sumar. Grindavík er með rétt tæpa þúsund manns að meðaltali og er í 7. sæti hvað áhorfendafjölda varðar.
Skagamenn eru efstir í þessum þætti en 2115 manns hafa að meðaltali sótt leiki liðsins á heimavelli eftir 8 umferðir en ÍA eins og Keflavík, Stjarnan og ÍBV hafa aðeins leikið 3 heimaleiki en 5 útileiki.
Tveir Keflvíkingar eru í liði vikunnar hjá Morgunblaðinu sem birtir samantekt um um ýmsa tölfræði. Það eru þeir Gregor Mohar varnarmaður og miðjumaðurinn efnilegi Frans Elvarsson. Morgunblaðið gefur M fyrir frammistöðu í leikjum og þar er Keflavík í 5. sæti en Grindavík í næst neðsta sæti. Jóhann B. Guðmundsson er í 2-4. sæti með 7 M, einu á eftir Atla Guðnasyni í FH sem er með 8. Jóhann hefur leikið afar vel í sumar og er í sínu besta formi þó hann sé meðal elstu leikmanna liðsins.
Keflavík og Grindavík eru í tveimur neðstu sætunum í fjölda markskota. Keflavík er með 71 skot en Grindavík er lang neðst í þeim þætti með aðeins 55 skot. Efsta liðið í markskotum er FH með 113 skot.
Efsta mynd: Jóhann Birnir hefur leikið frábærlega í sumar. Hér skorar hann gegn ÍBV fyrr í sumar. Neðri mynd: Grindvíkingar eru neðarlega í flestum flokkum tölfræðinnar, þar á meðal í markskotum en þar eru þeir lang neðstir.