Nær allir bestu unglingar landsins keppa í Leirunni
Rúmlega 140 unglingar eru skráðir til leiks á Íslandsmótinu í höggleik sem hófst á Hólsvelli í Leiru á fimmtudag. Mótið stendur yfir í 3 daga og verða leiknar 54 holur.
Hólmsvöllur er í fanta fínu ásigkomulagi en langt er síðan völlurinn hefur litið svona vel út en mikil rigning í sumar hefur haft góð áhrif á gróðurinn. Á sama tíma undanfarin fimm ár hefur rigningarleysi haft áhrif á lit Hólmsvallar. Í sumar hefur meiri tími farið í grasslátt en síðustu árin hefur meiri tími fariði í vökvun.
Allir helstu unglingar landsins eru mættir, m.a. Gísli Sveinbergsson úr GK sem er með lægstu forgjöfina 1,2, félagi hans Birgir Björn Magnússon er með 1,4 og Fannar Ingi Steingrímsson frá Hveragerði er með 1,3. Besti kylfingur í 17-18 ára flokki pilta, Ragnar Már Garðarsson ætlar ekki að verja titilinn sem hann vann í fyrra. Hann tekur þátt í móti á Eimskipsmótaröðinni í Leirdalnum um helgina.
Hjá stúlkunum er Anna Sólveig Snorradóttir úr GK sem lék í fyrsta sinn með landsliðinu í sumar með lægstu forgjöf kvenna undir 18 ára en hún er með 1,5. Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR er með 2,1.