Myndskeið: Gunnar Heiðar nýr aðalþjálfari Njarðvíkinga
Í hádeginu í dag blés knattspyrnudeild Njarðvíkur til blaðamannafundar þar sem Gunnar Heiðar Þorvaldsson var kynntur til leiks sem nýr aðalþjálfari Njarðvíkinga.
Það ríkti spenna í salnum þegar Rafn Markús Vilbergsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Njarðvík, opnaði fundinn og fór yfir farinn veg en eins og Víkurfréttir greindu frá urðu breytingar á þjálfaramálum Njarðvíkinga fyrir nokkrum dögum síðan þegar Arnar Hallson var látinn fara frá félaginu.
„Við heyrðum í Gunnari í fyrradag sem tók vel í þá uppástungu að ganga til liðs við Njarðvík. Honum leist strax vel á það tækifæri að koma að því uppbyggingastarfi sem framundan er hjá Njarðvík. Það fer ekkert á milli mála út á við að félagið er að stækka í heild sinni, því fylgja eðlilega alls konar vaxtaverkir en þar liggja líka tækifæri – tækifæri fyrir meistaraflokk líka. Við erum með góðan leikmanna hóp og margar ástæður fyrir því að við höfum ekki verið að safna stigum en hlutverk Gunnars verður að koma inn og safna stigum.
Fyrst og síðast erum við þakklát fyrir það að hann taki að sér þetta verkefni og við semjum við Gunnar út þetta tímabil. Það er klárlega hugur hjá okkur að semja við hann til lengri tíma, það kemur bara í ljós í framhaldinu en núna einbeitum við okkur að þessum tíu leikjum sem eru eftir og gera vel þar,“ sagði Rafn Vilberg meðal annars þegar hann kynnti Gunnar Heiðar til leiks og bauð hann velkominn í félagið.
Gunnar Heiðar sagði að hann myndi byggja ofan á það góða starf sem Arnar og hans þjálfarateymi hafa unnið með Njarðvík en þjálfarateymið helst óbreytt að ósk Gunnars.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttamaður Víkurfrétta, ræddi við Gunnar Heiðar eftir að hann var kynntur til leiks og má sjá viðtalið í spilaranum hér að neðan.