Myndir: Úrslit réðust í spennandi bráðabana á Íslandsmóti í pútti
Fjömennasta mótið sem hefur verið haldið á landsvísu
Baráttan var æsispennandi um 1. sætið á Íslandsmóti Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA) í pútti 60 ára og eldri sem fram fór í Reykjanesbæ í gær, fimmtudaginn 18. ágúst. Fjórir keppendur voru þar jafnir í karlaflokki á 66 höggum og réðust úrslit í bráðabana. Eftir bráðabanann lá fyrir að Aðalbergur Þórarinsson hafði tryggt sér fyrsta sætið, Hafsteinn Guðnason annað sætið og Ingimundur Ingimundarson það þriðja.
Í kvennaflokki var Eydís Eyjólfsdóttir í fyrsta sæti, Álfheiður Einarsdóttir í öðru sæti en Jytta Juul í því þriðja.
Metþátttaka var á Íslandsmótinu enda blíðskaparveður. Til leiks voru skráðir 94 keppendur frá ellefu félögum og komu sumir langt að á þetta skemmtilega og spennandi mót. Allar félagsmiðstöðvar eða aðrir staðir um allt land þar sem aldraðir æfa pútt gátu sent keppendur eða lið á mótið. Flestir keppenda eru gamlar kempur úr ungmennafélagshreyfingunni.
Keppendur voru á ýmsum aldri og var sá elsti 95 ára gamall.
Mótið var keppni á milli einstaklinga, karla og kvenna, en einnig var boðið upp á liðakeppni og voru fjórir í hverju liði. Sveit Púttklúbbs Suðurnesja sigraði í sveitakeppni á 199 höggum, og voru átta höggum á undan næstu sveit. Sveitina skipa Aðalbergur Þórarinsson, Hafsteinn Guðnason, Hákon Þorvaldsson og Guðbrandur Valtýsson.
Púttklúbb Suðurnesja átti veg og vanda að mótahaldinu í samstarfi við FÁÍA.