Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Myndi alltaf taka sömu ákvörðun
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 4. mars 2023 kl. 07:00

Myndi alltaf taka sömu ákvörðun

-segir Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta um síðustu sóknina gegn Georgíu.

„Ég myndi alltaf taka sömu ákvörðun, með svona frábæran skotmann með opið þriggja stigaskot,“ segir Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik um síðustu sóknina í stærsta landsleik Íslands gegn Georgíu á sunnudag. Jón Axel þaut upp völlinn með boltann og gerði sig líklegan til að fara í sniðskot en gaf svo boltann út á kantinn á Elvar Má Friðriksson sem reyndi þriggja stiga skot. Boltinn fór í körfuhringinn og snerist upp úr honum. 

Ísland þurfti að vinna leikinn með fjórum stigum eða meira til að tryggja sig í lokakeppni HM. VF heyrði í Jóni Axel sem var kominn „heim“ til Ítalíu þar sem hann leikur sem atvinnumaður. „Á skalanum einum til tíu er ég u.þ.b. 12-13 svekktur! Þetta var ofboðslega svekkjandi og auðvitað hef ég marghugsað þessa síðustu sókn. Hefði ég átt að reyna sniðskot með tvo stóra menn fyrir framan mig og öflugan varnarmann fyrir aftan sem hefði getað blokkað, eða átti ég að gefa út á galfrían frábæran skotmann, sem ég treysti til að setja svona skot í átta til níu af hverjum tíu skotum. Ég myndi ekki breyta neinu. Elvar Már er frábær skytta og þetta skot hans var grátlega nærri að fara ofan í en svona er þetta því miður stundum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurður um villuna sem dæmd var á Jón Axel úti á miðjum velli þegar einungis 4-5 sekúndur lifðu af leiknum sagði hann. „Þetta var lélegur dómur að mínu mati, ég var að spila nákvæmlega sömu vörn og ég var búinn að gera og allt í einu bjó Georgíumaðurinn til snertingu á mig og dómarinn flautaði. Ég var auðvitað svekktur með það en svo misnotaði hann bæði vítaskotin og við fengum gullið tækifæri en eins og áður sagði, þá gekk þetta því miður ekki núna. Við munum byggja á þessari forkeppni, við stóðum okkur virkilega vel og eigum helling inni. Erum flestir ungir að árum svo framtíð landsliðsins er björt, núna er bara að vona að KKÍ fái fjármagn í gera okkur kleift að keppa áfram á meðal þeirra bestu,“ sagði svekktur Jón Axel Guðmunsson að lokum.

Jón Axel er hér að gefa boltann út á kant Elvars Más sem reyndi síðan skot. Skjáskot af karfan.is