Myndband: Maradona-sprettur Elíasar Más
Tilþrif vikunnar og í liði umferðarinnar í Hollandi
Mark Keflvíkingsins Elíasar Más Ómarssonar í hollensku úrvalsdeildinni hefur vakið hrifningu knattspyrnuáhugafólks. Elías tryggði liði sínu 1-0 sigur um síðustu helgi með sannkölluðu draumamarki sem minnir um margt á tilþrif argentínskra snillinga sem bera númerið tíu á bakinu, en blöðin í Hollandi tala um að markið sé í anda sjálfs Diego Maradona.
„Þetta gekk fullkomlega upp. Ég fæ boltann á mínum vallarhelmingi. Eina sem ég gat gert var að halda áfram á ferðinni sem ég var á. Ég hægi á mér og lít í kringum mig og leita eftir samherjum sem voru of langt frá mér. Ég sé varnarmanninn taka furðulega hreyfingu þannig að ég næ að pikka boltanum framhjá honum. Þetta gerðist auðvitað allt í augnablikinu en maður sér allar smáhreyfingar sem henta manni til þess að komast alla leið. Varnarmaðurinn var svo í sjónlínu fyrir markmanninum þannig að hornið var bara opið,“ segir Elías í rólegheitunum þegar hann er beðinn um að lýsa markinu. Það er auðvitað ekkert eðlilegt við svona mark og leikmenn teljast heppnir að ná að galdra svona fram einu sinni á farsælum ferli.
„Ég áttaði mig ekki á því strax en eftir að fólk fór að tala um markið þá hugsaði ég nú að þetta væri alveg sæmilegt mark,“ segir Keflvíkingurinn hógvær en viðtal við framherjann má finna í Víkurfréttum vikunnar sem eru væntanlegar í lúgur Suðurnesjamanna. Markið má sjá í meðfylgjandi myndbandi.