Myndband: Keflavíkurstelpur sigruðu fyrir Ella
Knattspyrnuþjálfarinn Elís Kristjánsson lést um helgina
Leikmenn meistaraflokks kvenna í fótboltanum í Keflavík heiðruðu þjálfara sinn Elís Kristjánsson með sigri gegn Tindastól á laugardaginn var. Elís var einn af dáðustu knattspyrnuþjálfurum Keflavíkur en hann háði hetjulega baráttu við krabbamein og þeirri baráttu lauk aðfaranótt laugardagsins.
Keflvíkingar léku daginn eftir að Elís hafði fallið frá og fengu leikmenn fregnir af andláti hans skömmu fyrir leik. Elli, eins og hann var jafnan kallaður hafði þjálfað flestar Keflavíkurstelpurnar sem léku í leiknum gegn Tindastól á laugardag frá unga aldri, en hann var aðstoðarþjálfari liðsins þar til veikindin hömluðu fyrir skömmu. Skiljanlega voru miklar tilfinningar í leiknum sem endaði með 3-2 sigri Keflvíkinga. Í leikslok sameinuðust leikmenn og heiðruðu Ella með táknrænum hætti eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Nína Björk Gunnarsdóttir tók myndbandið og ritaði falleg orð til minningar um þjálfarann.
„Elli þjálfari hafði þjálfað okkur frá unga aldri alveg þangað til að hann greindist með krabbamein og þurfti að hætta núna á þessu ári. Elli var yndislegur maður og gerði okkur stelpurnar að okkur. Án hans værum við ekki þar sem við erum núna. Stelpurnar kepptu á laugardaginn með sorgarbönd til minningar um hann. Erfiðari leik höfum við ekki spilað. Blóð, sviti og helling af tárum fóru í þennan leik. Við ætluðum að vinna þennan leik fyrir Ella og það gerðum við! Sterkara lið er ekki hægt að finna, liðsandinn er hreint út sagt magnaður,“ sagði Nína Björk um þjálfarann dáða.