Myndasafn: Mikill hiti í Toyotahöllinni í gær
- Stjörnumenn saka Magnús Þór um að hafa fiskað Jovan úr húsi
Það var mikill hasar á leik Keflavíkur og Stjörnunnar í Toyotahöllinni í gær. Liðin mættust öðru sinni í 8-liða úrslitum í úrslitakeppni Domino’s deildarinnar. Keflavík hafði betur 100-87 í átakaleik. Mikill hiti var í mönnum og var Jovan Zdravevski meðal annars rekinn úr húsi fyrir að stjaka við Magnúsi Þór Gunnarssyni eftir að flautað var til hálfleiks.
Stjörnumenn voru mjög ósáttir með dóminn og töldu að Magnús hefði látið sig falla mjög auðveldlega til jarðar. „Þeir fóru með bringuna í hvorn annan, Magnús floppar og kastaði sér í gólfið. Þetta var náttla bara fáránlegt og nú er okkar maður jafnvel á leiðinni í leikbann. Það er hreinlega brandari. Í öðrum íþróttum er þetta ekki neitt,“ sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar að leik loknum. Teitur vildi þó ekki kenna dómurum leiksins um úrslit leiksins og sagði að leikur sinna manna hefði verið slakur á öllum sviðum.
Magnús Þór var öllu kátari í leiklok enda tókst hans mönnum að tryggja sér oddaleik á fimmtudag í Ásgarði. „Þetta er það sem við ætluðum okkur að gera. Við mættum jafn ákveðnir til leiks og við gerðum í Ásgarði í fyrsta leik. Þar spiluðum við bara í 10 mínútur en núna spiluðum við kannski svona 30 mínútur. Þetta er betra en síðast,“ sagði Magnús sem gefur ekki mikið fyrir ummæli Teits um að hann hefði látið sig falla eftir orðaskak við Jovan.
„ Jovan kom hlaupandi að mér og sló til mín. Það er bannað að slá í körfubolta – þetta er íþrótt án snertinga. Teitur má væla í dómurum og fréttamönnum mín vegna. Hann er ágætur í því og kann á þetta. Hann má segja það sem hann vill. Ég veit hvað gerðist og Jovan líka.“
Leikurinn í gær var hin mesta skemmtun. Mikil harka var í leiknum og spiluðu Keflvíkingar gríðarlega fasta vörn gegn Stjörnunni. Keflvíkingar misstu sinn besta mann, Michael Craion, af velli snemma í fyrri hálfleik vegna meiðsla og lék hann lítið í leiknum. Keflvíkingar þurftu að breyta um leikáætlun í kjölfarið. Þeir keyrðu upp hraðann sem Stjörnumenn réðu illa við. Liðið fékk líka mikilvægt framlag af bekknum frá Snorra Hrafnkelssyni sem skoraði 12 stig og vann vel í vörninni. Ungu strákarnir af bekknum komu sterkir inn sem gladdi Magnús.
„Við lögðum upp með að spila upp okkar besta mann [Michael Craion innsk. blm.] en því miður gátum við það ekki eftir að hann meiddist og þurftum að breyta til. Í kjölfarið keyrðum við upp hraðann. Það sýnir hversu sterkt lið við erum með. Við unnum Stjörnuna þó okkar besti maður væri meiddur."
Hér má sjá myndasafn frá leiknum.
Magnús Þór Gunnarsson var allt í öllu í leiknum í gær.
Það var hart barist í leiknum í gær og menn lágu oft í gólfinu.
Stuðninsmenn Keflavíkur voru ánægðir með frammistöðu sinna manna í gær.
Arnar Freyr Jónsson átti fínar innkomur af bekknum í gær hjá Keflavík.