„Munum þurfa að leggja enn harðar að okkur“
„Eftir að hafa náð fjögurra stiga forystu undir lok leiks töpuðum við mörgum boltum mjög klaufalega og klikkuðum á nokkrum sniðskotum sem varð til þess að Blikar jöfnuðu og komust yfir og lönduðu sigri,“ segir Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfuknattleik í samtali við Víkurfréttir, en liðið mætti Breiðablik á miðvikudagskvöld síðastliðið og töpuðu naumlega gegn þeim 72-69.
Stigahæstar í Keflavík voru Brittany Dinkins með 19 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar, Thelma Dís með 12 stig og 6 fráköst og Emelía Ósk með 11 stig og 6 fráköst.
„Auðvitað hefðum við vilja byrja tímabilið betur en staðan er einfaldlega sú að deildin er miklu jafnari en margir héldu og við munum þurfa að leggja enn harðar að okkur á æfingum og í komandi leikjum ef við viljum eiga möguleika á toppbaráttu í vetur,“ segir Sverrir.