Munum leggja mikið á okkur til að vinna deildina
- segir Guðlaugur Baldursson þjálfari Keflavíkur
„Tilfinningin er vægast sagt góð. Við erum mjög glaðir með það að vera komnir upp,“ segir Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur, sem var að vonum glaður eftir leik Keflavíkur og Gróttu síðastliðinn föstudag þar sem Pepsi-deildar sætið var tryggt. Guðlaugur segir að markmið liðsins og allra þeirra sem að því standa hafi verið skýr fyrir sumarið, það var að komast upp í Pepsi-deildina. Því markmiði er nú náð og næsta verkefni sé að vinna Inkasso deildina. Víkurfréttir töluðu við Guðlaug eftir leik Keflavíkur og Gróttu.
Þú tókst við Keflavík í vetur, sem hafði verið í töluverðu basli og nú hefur það tekist að koma liðinu í efstu deild á ný. Hvað gerði gæfumuninn?
„Það eru margir samverkandi þættir sem þarf að taka tillit til. Við tókum margar réttar ákvarðanir í vetur og gáfum mörgum ungum leikmönnum tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í undirbúningsleikjum og á æfingum. Það skilaði sér inn í sumarið og þeir hafa tekið stórt pláss í liðinu. Mér fannst við líka velja vel þegar kom að erlendum leikmönnum og að mínu mati varð úr þessu góð blanda. Það hafa orðið miklar framfarir hjá liðinu í allt sumar og við eigum ennþá mikið inni.“
Byrjunin var frekar erfið hjá ykkur, varðstu eitthvað efins þá?
„Ekki efins, við héldum okkur við það sem við ætluðum að gera og hvernig við ætluðum að vinna hlutina. Margir reynsluboltar hafa verið meiddir og við fórum inn í mótið þannig. Það er erfitt að byrja mót með marga nýja og unga leikmenn en þú þarft að öðlast reynslu og hún kemur með því að spila leiki. Ég átti von á því að það gæti orðið pínu ströggl í fyrstu leikjunum sem raunin varð en svo fundum við rétta blöndu og mér fannst við gera vel eftir smá erfiðleika í fyrstu fimm umferðunum.“
Liðið í ár er þannig lagað nýtt, í síðasta leik var einn byrjunarleikmaður sem var í byrjunarliðinu í fyrra.
„Já, það eru miklar breytingar og það tekur tíma að búa til og móta þannig lið. Þetta eru góðir strákar sem eru góðir í fótbolta og eru fljótir að læra inn á hvern annan. Þeir voru fljótir að læra og þroskast í sumar og það er ástæðan fyrir því að við erum á þessum frábæra stað þegar það eru enn tvær umferðir eftir af mótinu.“
Hvar myndir þú staðsetja Keflavík í dag ef þið væruð í Pepsi-deildinni?
„Ég get það ekki. Við erum í framförum en ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvað er mikill munur á milli deildanna. Við gætum örugglega staðið í liðum sem eru í neðri hluta deildarinnar en við eigum enn töluvert í land og þurfum að vinna vel ef við ætlum að standa okkur vel á næsta ári.“
Eruð þið farnir að hugsa eitthvað fram í tímann og komið þið til með að styrkja hópinn eitthvað?
„Við erum nýbúnir að tryggja okkur upp og erum með allan fókusinn á því verkefni sem við erum í núna. Auðvitað þurfum við að styrkja liðið og það er bara spurning hvernig við gerum það, hvort við gerum það utan frá, innan frá eða blöndum því saman. Mér finnst líklegt að við gerum það innan frá. Við erum komnir með ákveðinn kjarna af leikmönnum sem við viljum nota áfram. Það er alltaf gott að vera með þann kjarna og bæta síðan við hann.
Þið hafið verið duglegir að vinna í andlega þættinum og reynt að halda leikmönnum á jörðinni.
„Ef þú nærð að setja alla þína orku í það verkefni sem þú ert að fara að glíma við þá eru líkurnar á því að þú gerir það vel og haldir fókus, það er staðreynd. Við reyndum að gera það í leiknum, vildum forðast það að hugsa mikið um leik Þróttar og Fylkis því við gátum ekki haft áhrif á það hvernig hann færi en við gátum haft áhrif á það hvernig okkar leikur færi. Þegar mesti skjálftinn var farinn úr mönnum þá tókst okkur að vinna leikinn.“
Hvað ætlið þið að gera í næstu tveimur leikjum, er markmiðið að vinna deildina?
„Við erum búin að ná aðalmarkmiði sumarsins, að komast upp í efstu deild, en þegar þú ert íþróttamaður þá vilt þú að sjálfsögðu vera efstur og við munum leggja mikið á okkur til að vinna deildina.“