Mun aldrei gleyma þessum leik
-„Verðum að einbeita okkur að því sem við höfum stjórn á,“ segir Ingibjörg um dómgæslu leiksins
„Ég vona að ég haldi sætinu í byrjunarliðinu en það er mikil samkeppni um þessa stöðu og þjálfarinn velur það byrjunarlið sem hann telur henta best fyrir hvern leik,“ segir Ingibjörg Sigurðardóttir í samtali við Víkurfréttir, en í gær keppti hún fyrir Íslands hönd á EM í knattspyrnu þar sem liðið tapaði naumlega gegn Frakklandi 1-0.
„Það var ótrúleg tilfinning að spila þennan leik og eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Allt liðið spilaði vel og skildi allt eftir á vellinum og við getum verið stoltar af því.“ Segja má að Ingibjörg hafi náð sæti Önnu Bjarkar Kristjánsdóttur í byrjunarliði Íslands í undirbúningi fyrir EM en í samtali við Morgunblaðið segir Anna Björk að Ingibjörg hafi skilað sínu gríðarlega vel og flott sé að fá svona karaktera inn í hópinn. Þá sagði hún einnig að Ingibjörg væri yfirveguð, með mikið sjálfstraust og gríðarlega sterk. Í samtali við Víkurfréttir segir Ingibjörg að Anna Björk hafi hjálpað sér mikið. „Anna er frábær leikmaður og geggjaður liðsfélagi sem ég tek til fyrirmyndar.“
Misjafnar skoðanir hafa verið á dómsgæslu leiksins í gær en á 85. mínútu fengu Frakkar umdeilda vítaspyrnu. „Dómarinn tók mjög stórar ákvarðanir í þessum leik sem hafði mikil áhrif á leikinn en þetta er eitthvað sem við höfum enga stjórn á og við verðum bara að einbeita okkur að því sem við höfum stjórn á,“ segir Ingibjörg.
Að hennar sögn fara næstu dagar í hvíld og því að gleyma síðasta leik. „Núna einbeitum við okkur bara að næsta leik sem er á móti Sviss á laugardaginn. Svo eru fjölskyldur okkar hérna úti og við fáum að eyða einhverjum tíma með þeim líka sem er gott.“