Motocross: Aron efstur á Íslandsmótinu
Keflvíkingurinn Aron Ómarsson er efstur á Íslandsmótinu í motocrossi með fullt hús stiga eftir tvær fyrstu umferðirnar. Kappinn er því á blússandi siglingu og stefnir ótrauður til sigurs á mótinu. Það hefur reyndar verið takmark hans síðustu tvö ár og hafði hann alla burði til þess. Því miður komu óhöpp í veg fyrir að hann næði takmarki sínu.
„Bæði fyrir tímabilið í fyrra og árið þar áður var ég svo óheppinn að brjóta mig áður en keppnistímabilið byrjaði. Ég puttabrotnaði í fyrra skiptið og fótbrotnaði í það seinna sem varð til þess að ég missti af fyrstu keppninni. Það þýðir að maður á ekki möguleika í restina, maður verður að taka þátt í öllum fimm umferðinum. Það má ekkert út af bera,“ segir Aron.
Næsta keppni fer fram í Reykjavík en þar á eftir verður keppt í Sólbrekkum og segist Aron hlakka mest til hennar, enda á heimavelli.
---
Mynd/Aron í loftköstum. Hann hefur sýnt mikil tilþrif í Íslandsmótinu.