Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Mörkum rigndi í Sandgerði
Fimmta og síðasta markinu vill markvörður Völsungs sennilega gleyma sem fyrst. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 5. júní 2021 kl. 17:59

Mörkum rigndi í Sandgerði

Reynismenn tóku á móti Völsungi frá Húsavík í 2. deild karla í dag. Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik tóku Reynismenn heldur betur við sér og uppskáru 5:1 sigur.

Jafnræði var á með liðunum í fyrri hálfleik en talsverður vindur setti sitt mark á leikinn. Reynismenn byrjuðu á móti vindi og þegar skammt var til leikhlés fengu þeir víti sem Hörður Sveinsson skoraði úr (38')

Í seinni hálfleik fóru hlutirnir að gerast hratt, á 59. mínútu tvöfaldaði Magnús Þórir Matthíasson forystu Reynismanna en þremur mínútum síðar (62') minnkuðu Húsvíkingar muninn í 2:1. Reynismenn voru ekkert að tvínóna við hlutina og juku forskot sitt aftur í tvö mörk í næstu sókn (63') og var þar að verki Hörður Sveinsson með annað mark sitt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með tveggja marka forystu ætluðu Sandgerðingar ekki að hleypa Húsvíkingum aftur nærri sér og féllu örlítið til baka. Þeir voru skynsamir og leyfðu Völsungum að valsa með boltann á eiginn vallarhelmingi en settu pressu á þá þegar þeir færðu sig framar og Reynismenn voru fljótir í sóknina þegar þeir náðu boltanum. Þegar Húsvíkingar komust í sókn var fyrirliði Reynis, Strahinja Pajic, eins og klettur sem hleypti engum fram hjá sér.

Á 73. mínútu skoraði Kristófer Páll Viðarsson fjórða mark Reynis með góðu skoti úr teiknum og á 5. mínútu uppbótatíma nýtti Elfar Máni Bragason sér vindinn vel þegar hann tók hornspyrnu og skoraði beint yfir markmann Völsungs sem hafði varið nokkrum sinnum mjög vel á mínútunum þar á undan.

Síðasta orðið átti markvörður Reynis þegar sóknarmaður Húsvíkinga komst einn á móti honum en Rúnar Gissurarson var ekki á þeim buxunum að fá annað mark á sig og varði frábærlega.

Lokatölur 5:1 fyrir heimamenn sem eru komnir í fimmta sæti deildarinnar fyrir vikið.

Rúnar gerði vel þegar hann varði vel frá Húsvikingi sem var kominn einn á móti honum í lok leiks.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.


KF - Þróttur 0:0

Þróttarar fóru til Ólafsfjarðar í dag og léku við KF sem er í öðru sæti 2. deildar á meðan Þróttur er í því þriðja.

Þróttarar fóru illa með færin sín í leiknum og lauk honum með markalausu jafntefli.

Þróttur situr enn í þriðja sæti, einu stigi á eftir ÍR og KF.


Fjarðabyggð - Njarðvík 1:1

Njarðvíkingar héldu austur í land, nánar tiltekið til Eskifjarðar, þar sem þeir léku gegn Fjarðabyggð.

Njarðvík lenti undir í seinni hálfleik þegar heimamenn skoruðu (73') en Andri Fannar Freysson jafnaði fyrir Njarðvík úr vítaspyrnu nokkrum mínútum fyrir leikslok (85').

Svekkjandi jafntefli hjá Njarðvíkingum sem eru í sjötta sæti 2. deildar á meðan Fjarðabyggð situr í næstneðsta sæti og hafði aðeins náð einu stigi fyrir þennan leik.

Reynir - Völsungur (5:1) | 2. deild karla 5. júní 2021