Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mörkin komu á færibandi í fyrsta sigri Grindavíkur
Mánudagur 26. maí 2008 kl. 22:37

Mörkin komu á færibandi í fyrsta sigri Grindavíkur

Grindvíkingar eru komnir úr fallsæti í Landsbankadeild karla í knattspyrnu eftir magnaðan 3-6 sigur á Breiðablik á Kópavogsvelli í kvöld. Leikurinn var sá síðasti í fjórðu umferðinni þar sem gulir fóru algerlega á kostum og gerðu fimm mörk í fyrri hálfleik. Tomasz Stolpa og Andri Steinn Birgisson skoruðu báðir tvívegis í kvöld en hin tvö mörkin gerðu Orri Freyr Hjaltalín og Scott Ramsay. Eftir þrjá ósigra í röð við upphaf Íslandsmótsin hefur stíflan heldur betur brostið hjá Grindvíkingum sem voru með þvílíka yfirburði í fyrri hálfleik en í þeim síðari gáfu þeir lítið eitt eftir og fengu á sig tvö mörk en stráðu salti í sár Blika í viðbótartíma með sjötta markinu og innsigliðu stórsigur sinn.
 
Hinn ungi og efnilegi Jósef Kristinn Jósefsson var í byrjunarliði Grindavíkur í kvöld en hann hefur verið fjarverandi þar sem hann handleggsbrotnaði á hægri hendi. Jósef lék í stöðu vinstri bakvarðar og komst vel frá sínu í kvöld.
 
Tomasz Stolpa kom Grindavík í 0-1 strax á fyrstu mínútu leiksins. Stolpa gerði mark Grindavíkur þegar aðeins 19 sekúndur voru liðnar af leiknum er hann fékk stungusendingu inn fyrir vörn Blika og skoraði af miklu öryggi og heimamenn vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið.
 
Adam var ekki lengi í Paradís þar sem Blikar jöfnuðu metin í 1-1 á 17. mínútu leiksins þegar fyrirgjöf kom fyrir mark Grindavíkur af hægri kanti. Boltinn rataði beint á kollinn á Nenad Zivanovic sem skallaði hann í hægra markhornið en Zankarlo Simunic markvörður Grindavíkur náði næstum því til boltans en var örlítið of seinn.
 
Heimamenn úr Kópavogi heimtuðu vítaspyrnu á 23. mínútu leiksins er boltinn fór í höndina á einum varnarmanni Grindavíkur. Kristinn Jakobsson dómari leiksins var í góðri aðstöðu til að sjá atvikið en dæmdi ekki neitt og var 100% viss í sinni sök.
 
Á 28. mínútu dró aftur til tíðinda í herbúðum Grindavíkur þegar Scott töframaður Ramsay sendi boltann af hægri kanti inn í markteig Blika og fann þar fyrirliðann Orra Frey Hjaltalín sem sendi boltann viðstöðulaust í netið og staðan orðin 2-1 Grindvíkingum í vil. Vel útfært mark hjá gestunum sem hertu róðurinn til muna eftir þetta.
 
Tomasz Stolpa var sjóðheitur í leiknum í kvöld og á 30. mínútu vann hann boltann rétt fyrir innan miðju af Guðmanni Þórissyni. Brunaði í átt að markinu, lék á annan varnarmann Blika og vippaði svo yfir Casper Jacobsen í markinu og staðan orðin 3-1 og Grindvíkingar sjóðheitir og vildu meira.
 
Þriðja mark Grindavíkur kom ekki áfallalaust því í sömu sókn meiddist Ray Anthony Jónsson og varð að fara af leikvelli en í hans stað kom Michael Jónsson, bróðir Ray, inn í Grindavíkurliðið.
 
Kappsamir Grindvíkingar voru engan veginn á því máli að sýna Breiðablik linkind og bættu því við fjórða markinu á 38. mínútu. Grindvíkingar brutust upp völlinn í skyndisókn þar sem Michael skiptimaður Jónsson stakk boltanum inn á Scott Ramsay sem steig rétt inn í teig og líkt og þriðja markinu mátti Casper markvörður Blika sætta sig við að láta vippa boltanum yfir sig í markinu. Það tók því Michael Jónsson ekki langan tíma að láta finna fyrir sér á vellinum og ljóst að menn eru klárir á bekknum hjá Milani Stefáni þjálfara Grindavíkur.
 
Jóhann Helgason var upphafsmaðurinn að fimmta marki Grindavíkur þegar hann vann boltann á miðjunni og renndi honum á Andra Stein Birgisson sem gerði sitt fyrsta mark í sumar og fimmta mark Grindavíkur í leiknum á 40. mínútu. Hreint lygilegar tölur á Kópavogsvelli og sáust margir stuðningsmenn Blika yfirgefa leikvöllinn áður en blásið var til leikhlés. Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 1-5 Grindvíkingum í vil og ljóst að róðurinn yrði þungur hjá heimamönnum gegn líflegum og kraftmiklum Grindvíkingum.
 
Blikar gerðu tvær breytingar á liði sínu í hálfleik og það virkaði ágætlega framan af þar sem Blikar voru líflegri enda þurftu þeir að vinna upp fjögurra marka mun Grindavíkur. Á 61. mínútu átti Magnús Páll Gunnarsson góðan skalla að Grindavíkurmarkinu sem fór rétt framhjá og á þessum kafla leiksins lá Blikamark í loftinu.
 
Á 76. mínútu leiksins náðu Blikar að skora öðru sinni í leiknum þegar Nenad Petrovic sendi boltann fyrir mark Grindavíkur, beint á kollinn á Prince Mathilda sem skallaði boltann í netið. Glæsilegt mark en staðan 2-5 fyrir Grindvíkinga þegar14 mínútur voru til leiksloka.
 
Jóhann Berg Guðmundsson var arkitektinn að þriðja marki Blika í leiknum en hann fann Hauk Baldvinsson á 81. mínútu með góðri sendingu inn í teiginn. Haukur sem kom inn á sem varamaður og var að leika sinn fyrsta leik í úrvalsdeild var öryggið uppmálað og sendi knöttinn í netið og minnkaði muninn í 3-5.
 
Blikar voru mun betri í síðari hálfleik og ekki var laust við að Grindvíkingar væru orðnir saddir enda lái þeim það enginn því flestir myndu sáttir við una með fimm mörk á útivelli en Grindvíkingar gerðust helst of værukærir.
 
Andri Steinn Birgisson nuddaði svo salt í sár heimamanna í viðbótartíma þegar Scott Ramsay fíflaði varnarmenn Blika upp úr skónum á endalínunni hægra megin, sendi boltann inn í teig beint á Andra Stein sem þakkaði fyrir sig með því að skora öðru sinni í leiknum og sjötta mark Grindavíkur. Lokatölurnar á Kópavogsvelli voru því 3-6 Grindvíkingum í vil sem fóru hreinlega á kostum í kvöld og markaþurrðin hjá gulum er á enda.
 
Jóhann Helgason var iðinn við kolann á miðjunni hjá Grindavík og í heild var liðið að leika af miklum krafti og áttu fyrri hálfleikinn algerlega skuldlausan en hefðu mátt klára hann af meiri krafti en stigin þrjú í hús og fyrsti Grindavíkursigur sumarsins staðreynd og gleðjast þá Grindvíkingar. Scott Ramsay var vafalítið maður vallarins og var að vanda stórhættulegur fyrir Grindvíkinga.
 
 
Byrjunarlið Grindavíkur í kvöld:
Zankarlo Simunic, markvörður, Ray Anthony Jónsson, Scott Ramsay, Marinko Skaricic, Andri Steinn Birgisson, Jóhann Helgason, Tomasz Stolpa, Eysteinn Húni Hauksson Kjerúlf, Orri Freyr Hjaltalín, Alexander Veigar Þórarinsson og Jósef Kristinn Jósefsson.
 
Byrjunarlið Breiðabliks í kvöld:
Casper Jacobsen, markvörður, Árni Krstinn Gunnarsson, Srdjan Gasic, Nenad Petrovic, Arnar Grétarsson, Prince Linval Reuben Mathilda, Steinþór Freyr Þorsteinsson, Guðmann Þórisson, Jóhann Berg Guðmundsson, Kristinn Jónsson og Nenad Zivanovic.
 
VF-Myndir/ Jón Júlíus Karlsson, [email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024