Mögnuð upplifun - Már var fánaberi Íslands í París
„Þetta var mögnuð upplifun að ganga svona um götur Parísar sem fánaberi Íslands og þetta mun veita mér þrótt og kraft inn í þá keppni sem framundan er. Æðislegt að labba niður þessar sögufrægu slóðir umvafinn góðu fólki og þúsundum áhorfenda þar sem Ísland var hvatt áfram í beinni útsendingu er klárlega eitthvað maður á eftir að muna lengi,“ sagði Már Gunnarsson, sundmaður úr Reykjanesbæ eftir setningu Paralympics í París í gær.
Már sagðist hafa fundið góða strauma frá fólki.
„Ég reyndi að veifa áhorfendum eins og ég gat og við fundum einhvern svona kraft streyma frá fólki svo það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið mögnuð upplifun.“
Njarðvíkingurinn Jón Björn Ólafsson er aðalfararstjóri Íslands í París og hann var líka í skýjunum eftir setninguna.
„Heimamenn í Frakklandi hafa gert einstaklega vel við að undirbúa sögulega leika en að þessu sinni er metfjöldi kvenna sem keppir á Paralympics. Eins hafa aldrei fleiri þátttökuþjóðir verið á leikunum svo Parasport er á hraðri siglingu þessi misserin.
Ísland á fimm keppendur á mótinu og það er virkilega gaman að sjá öflugan fulltrúa frá Reykjanesbæ eins og Má vera að leiða íslensku þjóðina inn á setningarhátíð leikanna. Það er ljóst að Már býr einstaklega vel að þeim grunni og þeirri afreksþjálfun sem hann fékk hjá sundþjálfurum ÍRB og því ber að fagna.
Már er í flottu formi þessa dagana og mun vafalítið láta fyrir sér finna í lauginni. Þetta verða mínir áttundu Paralympics þar sem ég starfa fyrir Ísland og í annað sinn sem við Már förum saman í verkefnið en hans fyrstu leikar voru í Tokyo 2020 þar sem hann komst í úrslit í 100m baksundi og var steinsnar frá því að vinna til verðlauna, “ sagði Jón Björn.