Minningarmót Ragnars Margeirssonar haldið um helgina
Minningarmót Ragnars Margeirssonar fór fram í Reykjaneshöllinni laugardaginn 14. febrúar. Leikið var á litlum völlum þar sem 6 leikmenn voru í liði og var 30 ára aldurstakmark í mótið. Þátttökulið voru 8 talsins: Keflavík 1, Keflavík 2, Keflavík´97 (Bikarmeistaralið Keflavíkur frá 1997), Haukar, Víðir, Grindavík, Njarðvík og Kjallarinn. Heimasíða Keflavíkur gat þess að gaman hefði verið fá fleiri lið í mótið þar sem þeir eru margir sem léku með Ragnari Margeirssyni í gegnum tíðina, en þeir vona að fleiri mæti að ári.
Ragnar lék sem kunnugt er með Keflavík, Fram og KR hér á landi auk þess að leika með erlendum liðum. Hann lék einnig 46 A-landsleiki. Þetta er í annað sinn sem mótið fer fram og voru þátttakendur glaðir í mótslok enda alltaf gaman þegar gamlir knattspyrnukappar hittast og þá eru gjarnan gömul og skemmtileg afrek rifjuð upp!
Leikar fóru þannig að Keflavík ´97 sigraði mjög sannfærandi, en þeir sigruðu Kjallarann í úrslitaleik mótsins.
Myndir af liðunum og nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Keflavíkur.