Minningarmót Guðmundar Steinssonar tókst vel til
- Stefnt á 1. deildarlið í handboltanum árið 2016
Um fátt er meira rætt þessa dagana en handbolta. Þegar íslenska landsliðið keppir á stórmóti breytast Íslendingar í bandbrjálaðar handboltabullur sem sitja með hjartað í buxunum fyrir framan sjónvarpið á meðan liðið leikur. Þrátt fyrir að Suðurnesin verði seint talin vagga handboltans þá er hér blómlegt starf sem fram fer í Reykjanesbæ. Þrátt fyrir að meistaraflokkur HKR sé ekki lengur starfandi þá leika um 80 ungmenni með yngri flokkum liðsins.
Guðfinnur Örn Magnússon er þjálfari hjá félaginu en hann segir að liðið sé með lið í öllum flokkum og vel gangi hjá krökkunum. Þrátt fyrir að leggja hafi þurft meistaraflokk niður sl. haust þá sé stefnt á að endurvekja hann árið 2016. „Þá höfum við hugsað okkur að vera með lið í 1. deild sem yrði skipað uppöldum heimamönnum.“
Um sl. helgi fór fram minningarmót Guðmundar Steinssonar. Guðfinnur segir að vel hafi til tekist. Keppendur voru á bilinu 80-90 talsins og á öllum aldri. Gamlar kempur mættu til leiks og spreyttu sig m.a. gegn ungum iðkendum. 13 strákar úr 4. flokki HKR og þrír fullorðnir þreyttu svo dómarapróf samhliða mótinu. Tekið var bóklegt próf hjá þekktu dómurunum og Suðurnesjamönnunum, Hafsteini Ingibergssyni og Gísla Jóhannssyni. Allir stóðust prófið en verklega prófið var svo framkvæmt með því að dæma leiki mótsins.
Þegar stórmót eru í gangi þá kviknar ávallt meiri áhugi á íþróttinni að sögn Guðfinns. „Eftir því sem gengur betur hjá landsliðinu verður áhuginn meiri og fleiri koma að prófa. Við erum með fríar æfingar fyrir 1.- 6. bekk allan veturinn og hjá eldri krökkunum er frítt í janúar á meðan EM er í gangi. Allir eru velkomnir og það er aldrei of seint að byrja að æfa,“ segir þjálfarinn að lokum.