Minning Ragga Margeirs og Steina Gísla heiðruð
Hópur Suðurnesjamanna sem kalla sig einfaldlega vinir Ragga Margeirs munu standa fyrir Minningarmóti um Ragnar heitinn Margeirsson, landsliðsmann í knattspyrnu, laugardaginn 25. febrúar. Allur ágóði af mótinu mun renna til styrktar fjölskyldu Sigursteins heitins Gíslasonar. Mótið er ætlað eldri drengjum eins og það er orðað í tilkynningu frá vinum Ragnars. Mótið hafa þeir nokkrum sinnum haldið áður en um tíu ár eru liðin frá andláti Ragnars sem gerði garðinn frægan á sínum tíma með Keflavík, Fram og KR hérlendis en einnig í Belgíu og í Þýskalandi. Ragnar hefði orðið fimmtugur á þessu ári og meðal annars þess vegna blása vinir hans til leiks á ný.
Afraksturinn af mótinu rennur iðulega til góðra málefna og að þessu sinni rennur hann óskiptur til fjölskyldu Sigursteins sem tók sjálfur oft þátt í minningarmótinu. Styrktaraðili sem ekki vill láta nafns síns getið mun greiða þann kostnað sem af mótinu hlýst.
Í meðfylgjandi tilkynningu koma fram helstu upplýsingar um mótið:
Ágætu knattspyrnuáhugamenn í flokki eldri drengja
Nokkur pláss eru enn laus í Minningarmót Ragga Margeirs, sem haldið verður í Reykjaneshöllinni laugardaginn 25. febrúar nk. Þessi pláss eru ekki mörg, enda er þátttaka á mótinu takmörkuð við 16 lið. Mótið er haldið í léttum dúr, stendur yfir í 2-3 klukkustundir og lýkur síðan með verðlaunaafhendingu auk léttra veitinga (pitsa og öl) í mótslok.
Rétt er að geta þess að allur ágóði af mótinu mun að þessu sinni renna til styrktar fjölskyldu Sigursteins Gíslasonar knattspyrnukappa sem lést fyrir skömmu. Við höfum þegar fengið styrktaraðila að mótinu (sem ekki vill koma fram opinberlega) sem mun standa straum af öllum útgjöldum vegna mótsins, þannig að afraksturinn rennur því nánast óskiptur til styrktar þessu góða málefni. Við bendum jafnframt á að einnig er tekið er við frjálsum framlögum til styrktar málefninu.
Skáning á mótið fer fram með því að senda tilkynningu um lið með tölvupósti á netfangið: [email protected], en þátttaka staðfestist ekki fyrr en búið er að leggja 5.000 kr. inn á reikning nr. 121-05-10026, kt. 180161-4229. Þátttöku þarf að staðfesta fyrir föstudaginn 17. febrúar.
Vinir Ragga Margeirs.