Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Minnibolti drengja í Keflavík tók silfrið með stæl
Miðvikudagur 6. apríl 2011 kl. 14:36

Minnibolti drengja í Keflavík tók silfrið með stæl

Keflavíkurdrengirnir í minnibolta 11 ára enduðu í 2. sætinu á Íslandsmótinu, helgina 19.-20. mars, eftir harða og mikla baráttu við tvö sterk lið frá KR ásamt ÍR og Stjörnunni. Óhætt er að segja að miklar framfarir hafi verið hjá drengjunum í vetur enda hafa þeir bætt sig á milli allra umferða sem leiknar hafa verið í vetur og sýnt það og sannað að þarna er flottur hópur á ferð sem eflaust á eftir að láta frekar að sér kveða í framtíðinni. Björn Einarsson hefur þjálfað strákana í vetur með mjög góðum árangri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

KRingar léku með tvö lið í lokaumferðinni þar sem b-lið þeirra var búið að vinna sig upp úr D-riðli og alla leið upp í A-riðil í lokaumferðinni. Liðum KR hefur ekki verið getuskipt í þessum árgangi heldur hafa þeir teflt fram tveimur jöfnum liðum.

Keflvíkingar hófu leik á laugardagsmorgni gegn KR-b og voru heldur betur mættir til að láta sverfa til stáls. Góð stemming var í liðinu og tóku drengirnir strax forustuna og leiddu í hálfleik með 3 stigum. Eftir 3. leikhluta hafði Keflavík 1 stigs forskot en í lok 4.leikhluta og sérstaklega byrjun þess 5. fór allt úrskeiðis hjá strákunum, leikmenn voru ragir að sækja á körfuna og gleymdu sér ítrekað í vörninni og KR b landaði naumum sigri 28-35.

Næsti leikur var við Stjörnuna og unnu peyjarnir leikinn með 5 stigum, 37-32. Sigurinn var í raun mun öruggari en tölurnar gefa til kynna og var spilamennskan hjá okkar drengjum til fyrirmyndar og baráttan virkilega góð.

Fyrsti leikur sunnudagsins var gegn ÍR og eftir brösuga byrjun sigraði Keflavík með 20 stigum þar sem öflugur varnarleikur lagði grunninn að góðum sigri en lokatölur urðu 50-30.

Þegar þarna var komið við sögu var ljóst að síðasti leikur mótsins yrði úrslitaleikur um 2.sætið og það á móti sterku liði KR sem hafði tapað innbyrðis viðureigninni við KR b sem þar með hafði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. Drengirnir mættu gríðarlega vel stemmdir á völlinn eftir mikinn hvatningarpistil Bjössa þjálfara inni í klefa fyrir leikinn. Til að gera langa sögu stutta þá unnu peyjarnir leikinn og KR þar með í fyrsta skiptið í vetur. Var þetta einn mest spennandi leikur sem hefur verið spilaður á Sunnubrautinni í langan tíma. Áhorfendur og leikmenn klöppuðu, hvöttu og sungu og var fögnuður leikmanna í lokin algjörlega ósvikinn. Strákarnir spiluðu frábæran varnarleik og áttu KR ingar ekki séns frá upphafi leiksins þó svo leikurinn hafi verið jafn og spennandi. Okkar strákar voru bara það vel stemmdir, grimmir og hungraðir í silfrið að það kom aldrei til greina að láta KRinga hirða það líka. Þegar drengirnir spila svona varnarleik og eru að berjast með þessum hætti sem þeir sýndu í þessum leik þá á ekkert lið breik í þessa peyja. Lokatölur leiksins 37-28 og 2. sætið og silfurverðlaun þar með staðreynd.

Frétt af keflavik.is

Glaðbeittir Keflvíkingar með Birni þjálfara. Neðst er mynd úr leik gegn ÍR í úrslitakeppninni.