Miklu léttara yfir manni þennan veturinn
– segir Sindri Snær Magnússon, leikmaður Keflavíkur í knattspyrnu
Lokakafli undirbúningstímabilsins í knattspyrnu 2023 er farinn af stað og Keflvíkingar hafa leikið tvo leiki í Lengjubikar karla, þann fyrri gegn KA sem vannst með tveimur mörkum gegn einu en svo tapaði liðið fyrir Þór í næsta leik, 4:1. Víkurfréttir spjölluðu við hinn leikreynda leikmann Keflavíkur, Sindra Snæ Magnússon, um tímabilið sem er framundan.
„Ég met stöðuna bara vel,“ segir Sindri í upphafi spjallsins. „Undirbúningstímabilið hefur gengið vel, það eru miklar breytingar á liðinu frá síðasta tímabili og margir ungir strákar eru búnir að fá að spila.
Leikirnir til að sýna sig og sanna
Í leiknum á móti KA vorum við fjölmennir og það gekk vel [2:1 sigur] en svo á móti Þór um síðustu helgi [4:1 tap] vantaði sex eldri leikmenn og tvo af þeim ungu, Axel Ingi [Jóhannesson] og Ásgeir Orri [Ásgeirsson] sem voru valdir í U19 landsliðsverkefni – þannig að það vantaði sex eða sjö leikmenn frá síðasta leik en í staðinn komu ungir og efnilegir inn í hópinn og þetta var kjörið tækifæri fyrir þá til að sýna sig og sanna. Því miður voru úrslitin ekki góð, sumt í spilamennskunni var mjög gott en annað ekki nógu gott.“
Sindri segist ekki hafa neinar áhyggjur af þessum úrslitum, þetta hafi verið miklar breytingar á liðinu en nákvæmlega það sem ungu strákarnir þurftu. Að fá að spila alvöruleik á móti alvöruliði, fá sénsinn til að sýna sig og sanna að þeir eigi erindi í liðið í sumar.
„Lengjubikarinn er tilvalið mót til að gefa mönnum tækifæri, þetta er millistigið frá því að vera að spila æfingaleiki og að vera komnir í alvöruna í Íslandsmótinu. Þarna fá allt í einu sex nýir, ungir og efnilegir tækifæri til að spila á einu bretti frá því í leiknum á undan.
Svona forföll geta alltaf gerst á undirbúningstímabilinu og þá er um að gera að grípa tækifærið – þetta er risatími fyrir menn til að sanna sig.“
Ungu strákarnir hafa verið gera góða hluti á undirbúningstímanum og Sindri heldur að þeir komi til með að spila; „fullt, fullt af mínútum – hversu mikið er eiginlega bara undir þeim sjálfum komið.“
Er ennþá að bæta sig
Sindri átti við ökklameiðsli að stríða á síðasta ári og missti af stærstum hluta tímabilsins – en hvernig er staðan á honum núna?
„Ég var óheppinn í fyrra, fór í aðgerð á ökkla og missti af fyrstu ... hvað? Fjórtán, fimmtán leikjunum eða eitthvað svoleiðis. Síðan hefur bara gengið vel og mér fannst ég spila vel í lokin. Endaði tímabilið af krafti og hef bara náð að halda því áfram – svo er miklu léttara yfir manni þennan veturinn enda ekki búinn að sitja á hjóli í þrjá mánuði eins og á síðasta ári. Það er léttara yfir manni þegar maður nær að vera með.“
Og hefur ökklinn alveg haldið?
„Já, ég finn ekki fyrir neinu og hef bara verið að byggja ofan á það sem ég komst af stað með síðasta sumar, svo það er ekki hægt að kvarta yfir neinu. Hef bara náð að bæta í og það er bara gaman að bæta sig – maður er ennþá það ungur,“ segir Sindri sem er með þeim elstu í liðinu. „Það er nóg eftir, menn eru að spila til fertugs svo ég er bara rétt að byrja.“
Umræðan á hliðarlínunni
Það hafa heyrst háværar áhyggjuraddir stuðningsmanna af leikmannamálum Keflavíkur en liðið er að ganga í gegnum miklar breytingar frá síðasta tímabili. Hefur Sindri áhyggjur af stöðu mála?
„Ég hef engar áhyggjur og líst bara vel á tímabilið. Þjálfarateymið hefur sýnt og það sannað, Siggi til langs tíma og þeir Halli [Haraldur Freyr Guðmundsson] og Ómar [Jóhannsson], að þeir kunna að velja vel inn leikmenn. Þeir hafa valið flotta leikmenn ofan á þann kjarna sem er í Keflavíkurliðinu líka. Svo hafa ungu strákarnir verið að nýta tækifærið og staðið sig vel – á meðan þeir eru að spila vel er engin ástæða að fá aðra leikmenn í þeirra stöður. Þannig að ég hef engar áhyggjur af því, það sést bara á því hvernig undirbúningstímabilið hefur gengið – við getum þannig séð unnið öll lið en það er stutt stórra högga á milli, við megum ekki við því að tapa fyrir miðlungsfyrstudeildarliðum, eins og Þór var í fyrra, eftir að hafa unnið næststerkasta lið efstu deildar í leiknum þar á undan. Við þurfum að þroskast hratt, við eldri leikmenn að hjálpa þeim yngri og svo öfugt.“