Miklir yfirburðir hjá ÍRB í sundinu
Sundlið ÍRB er það besta á landinu í dag og það sér bersýnilega þegar litið er á árangur liðsins í síðustu mótum. ÍRB hefur tekið þátt í tveimur sterkum sundmótum á síðustu vikum og náði frábærum árangri. Í kjölfarið hafa margir sundmenn úr röðum ÍRB verið valdnir í landsliðsverkefni fyrir Íslands hönd og ljóst að mikill uppgangur er í sundinu í Reykjanesbæ.
UMÍ – Unglingameistaramót Íslands
Um miðjan júní var haldið Unglingameistaramót Íslands og þar var ÍRB með flesta verðlaunahafa. ÍRB vann 64 verðlaun, 27 gull, 26 silfur og 11 brons. SH var með næst flest verðlaun 45 talsins og svipaðan keppendafjölda. Til viðbótar við þetta þá var ÍRB eina liðið sem átti sundmann sem setti Íslandsmet á mótinu. Það var Ólöf Edda Eðvarðsdóttir sem gerði það í 400m fjórsundi í stúlknaflokki á tímanum 5:02,33 og náði 707 FINA stigum.
Íris Ósk Hilmarsdóttir vann bikarinn fyrir stigahæstu sundin í flokki 15-17 ára og Kristófer Sigurðsson vann bikarinn fyrir stigahæstu sundin í flokki 18-20 ára. Þá náðu þrír sundmenn ÍRB lágmörkum í landsliðsverkefni á mótinu og bætast við þá sem þegar hafa náð lágmörkum.
AMÍ - Aldursflokkameistaramót Íslands
ÍRB varð líka Aldursflokkameistari í sundi á Akureyri í lok júní. Þar sigraði liðið með miklum yfirburðum. Liðið hlaut 1.016 stig en næsta lið Ægir var með 563 stig. Mikil og góð stemming var á Akureyri meðal sundmanna og foreldra og má segja að árangur liðsins hafi vakið mikla athygli. Þá voru önnur félög einnig að spyrja út í hvernig þjálfarar og foreldrar færu að því að halda sundmönnum svo lengi í sundi en mörg félög glíma við mikið brottfall úr sundi í kringum 15 ára aldurinn. Það má með sanni segja að það hafi ekki verið vandamál hjá ÍRB. Þar getur spilað inn í að hjá ÍRB er boðið upp á mismunandi hópa fyrir sundmenn eftir því hvað þeir vilja leggja mikið á sig og svo státar liðið af besta þjálfarateymi landsins að margra mati.
Nokkur afreksverðlaun eru alltaf afhent á lokahófi AMÍ og í ár hlutu þrjár stúlkur úr röðum ÍRB viðurkenningar. Sunneva Dögg Friðriksdóttir hlaut Ólafsbikarinn og fékk jafnframt kr. 10.000 í styrk úr minningarsjóðnum. Það var ekkja Óla Þórs, Svanhvít Jóhannsdóttir sem afhenti bikarinn. Í meyjaflokki hlaut Jóhanna Matthea Jóhannesdóttir afreksverðlaunin fyrir 200m fjórsund, 400m skriðsund og 200m skriðsund samtals 1385 stig.
Í stúlknaflokki hlaut Íris Ósk Hilmarsdóttir afreksverðlaunin fyrir 200 metra baksund og 400 metra skriðsund samtals 1330 stig.
Sundmenn í landsliðsverkefnum
Sundlið ÍRB hefur sjaldan eða aldrei átt eins marga sundmenn í unglingalandsliðum. Á þessu sundári kemur ÍRB til með að eiga 16 sundmenn í landsliðum en á undanförum árum hefur verið algengt að ÍRB hafi átt 3-6 sundmenn og 2-3 af þeim hafa verið að æfa erlendis.
Næstu verkefni fara fram um miðjan júlí og þar synda margir sundmenn ÍRB og á liðið yfirleitt um 2/3 af heildarfjölda þeirra sem fara í verkefni.
Í Hollandi á EYOF, Ólympíudögum Evrópuæskunnar, synda Baldvin Sigmarsson, Sunneva Dögg Friðriksdóttir og Svanfríður Steingrímsdóttir. Í Póllandi á EMU, Evrópumeistaramót unglinga, synda þær Ólöf Edda Eðvarðsdóttir og Íris Ósk Hilmarsdóttir og á Norðurlandameistaramóti æskunnar sem verður í Reykjavík synda Þröstur Bjarnason, Eydís Kolbeinsdóttir og Sylwia Sienkiewicz. Góðu sundári eru nú að ljúka hjá ÍRB og allt stefnir í að næsta sundár verði jafnvel betra.
Hér má sjá þá einstaklinga sem eru á leið í landsliðsverkefni á næstunni.