Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikilvægt að standast álagið og pressuna
Samúel Kári Friðjónsson
Föstudagur 5. júní 2015 kl. 10:00

Mikilvægt að standast álagið og pressuna

Samúel Kári framlengir við 1. deildarlið Reading í Englandi. Færist nær aðalliðinu

Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson framlengdi á dögunum samning sinn við B- deildarlið Reading í Englandi en Samúel hefur verið á mála hjá liðinu undanfarin ár. Tímabilið sem leið var hans besta til þessa þar sem U21 árs lið félagsins stóð sig með mikilli prýði og er nú svo komið að Samúel er farin að gæla við að fá kallið inn í aðallið félagsins á næstu misserum haldi hann áfram að standa sig vel. Þetta er glæsilegur áfangi hjá Keflvíkingnum unga en Samúel er fyrsti ungi Íslendingurinn sem semur við enskt lið allt frá því Gylfi Sigurðsson var í svipuðum sporum, reyndar hjá sama félagi. Samúel svaraði nokkurum spurningum blaðamanns i vikunni.

Til að byrja með, til hamingju með flott tímabil og nýjan samning. Ef þú tekur saman tímabilið hjá þér og liðsfélögum þínum í U21 hjá Reading, hvernig blasir það við þér svona í baksýnisspeglinum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kærar þakkir, heilt yfir fannst mér við vera mjög góðir, byrjuðum frekar kæruleysislega og náðum ekki vel saman en svo þegar lengra dró á tímabilið þá byrjaði allt að smella. Unnum 7 leiki í röð og fengum ekki eitt einasta mark á okkur í þeim leikjum og má segja að það hafi verið hápunkturinn á þessu frábæra tímabili!

Þú virkar einbeittur, ungur maður og ábyggilega með plön til lengri tíma í boltanum. Hvernig finnst þér þessi tími hafa verið fyrir þig persónulega og finnst þér þín þróun sem fótboltamaður vera á pari við þær væntingar sem þú hafðir gert til sjálfs þíns fyrirfram?

Reading er góður klúbbur og þar er allt til staðar til að hjálpa ungum leikmanni að þroskast og ná árangri. Það hefur hjálpað mér mikið síðan ég kom. Fyrsta árið var strembið og skrítið augljóslega því ég var bara nýbyrjaður i atvinnumennskunni, þó að maður hafi farið til margra liða á reynslu þá er alltaf erfitt að flytja og hefja nýtt líf án vina og fjölskyldunnar. En þettta er lífið sem ég valdi mér. Ég stefni ávallt á toppinn og það hefur verið markmiðið mitt alla tíð. Á þessum tíma hef ég þroskast mikið og um leið gert mikið af mistökum, fullorðnast kannski og lært ýmsa hluti sem er bara gaman. Sem knattspyrnumaður hef ég bætt mig mikið síðan ég kom út, góðar æfingar, mikið tempó og góð aðstaða. Þetta er þó bara byrjunin. Það er mikið eftir.

Hvar finnst þér þú helst hafa bætt þig sem knattspyrnumaður?

Það er svolítið erfitt að að segja til um það. Ég er alltaf að bæta mig fótboltalega séð, er líkamlega sterkari og mun fljótari en ég var. Reynslan telur, ég æfi nánast alla daga ársins og fæ 5 vikna frí. Þetta telur allt vonandi. Það mikilvægasta er þó karakterinn, þola allt mótlæti, gagnrýnina og ekki síst samkeppnina. Það er mikil pressa og til þess að standast álagið þá þarftu sterka andlega hlið og ég myndi segja að það er mín sterkasta hlið.

Þú framlengir til eins árs við félagið, var lengri samningur á borðinu sem þú hafðir ekki áhuga á að bindast eða var þetta það sem báðir aðilar vildu þegar sest var við samningaborðið?

Það voru ræddir nokkrir möguleikar en þetta var sú lausn sem okkur fannst best og þetta setur aukna pressu á mig sem ég vildi og með því stefni ég á aðaliðið strax.

Ertu eitthvað farinn að gæla við að fá kallið inn í aðalliðið á næsta tímabili?

Hver veit hvað næsta tímabili ber í skauti sér. Ég stefni á að komast þangað sem fyrst og það er ekkert sem kemur í veg fyrir það, en til þess þarf allt að ganga upp, þannig að það er alltaf möguleiki. Maður þarf bara að vera tilbúinn þegar kallið kemur.

Hvernig er lífið í Reading annars að fara með þig, ertu orðinn að heimamanni þarna ef svo má segja?

Að búa hér er bara fínt, flottur staður, stutt í allt og mjög róleg borg. Ég að vísu bý aðeins frá miðborginni og það er bara yndislegt. Svo er stutt til London. Ég er orðinn hagvanur en ég verð nú ávallt Keflvíkingur og það breytist aldrei.
 

Nú er tímabilið á enda og sumarið að taka við. Hvernig ætlar Samúel Kári að verja sumrinu sínu?

Já, núna er sumarið komið og ég ætla að reyna njóta þess í botn að vera með fjölskyldunni og vinum og ekki síst kærustunni. Þetta er stutt frí, æfingar byrja í raun strax og stigmagnast síðan næstu 4 vikurnar áður en ég mæti aftur til Reading. Ég þarf að mæta til æfinga í góðu formi.

Hvernig líst þér á á Keflavíkurliðið það sem af er tímabils? Hefurðu fylgst eitthvað með gangi mála á Íslandi?

Liðið virðist vera í smá erfiðleikum en ég hef fulla trú á því að þetta komi allt hjá þeim. Stuðningmenn verða bara að styðja liðið í gegnum súrt og sætt. Það er bara þannig. Áfram Keflavík.