Mikilvægt að hreyfa sig og stunda einhverja rækt
Freyja Sigurðardóttir er einkaþjálfari og eigandi Þitt form sem fagnar tíu ára afmæli. Vinsælir hópatímar sex daga vikunnar.
„Það er mikilvægt setja sér einhver markmið en mikilvægast af öllu er að hreyfa sig og stunda einhverja rækt sem þér finnst skemmtileg og ef þú vilt ná árangri. Eftir sumarið er nauðsynlegt að koma sér í rútínu aftur og ég er með mjög fjölbreytta tíma sex daga vikunnar og einkaþjálfun fyrir fólk á öllum aldri,“ segir Freyja Sigurðardóttir, einkaþjálfari og eigandi námskeiða sem heita Þitt form og eru í Sporthúsinu á Ásbrú.
Þjálfað í tuttugu ár
Freyja hefur þjálfað fólk í tuttugu ár og síðasta rúma áratuginn hefur hún verið með Þitt form námskeið í Sporthúsinu. Þau eru fyrir konur og karla en hingað til hafa konur verið í meirihluta þeirra sem hafa sótt sex vikna námskeið hjá henni. Nú hefur orðið breyting á fyrirkomulaginu þannig að ekki er um námskeið að ræða heldur er boðið upp á tíma fimm sinnum á dag virka daga, kl. 6, 8:45, 12, 16.30 og 17.30 og síðan kl. 9.30 á laugardögum. Þú velur hvenær þú vilt mæta í tíma alla daga vikunnar. Um tvö hundruð manns stunda nú æfingar hjá henni, konur og karlar.
„Það er gott að geta verið með fasta tíma og flestir ættu að geta fundið sinn tíma en fólk getur valið um að koma á þessum tímum og þarf ekki að festa tímasetningu. Þessir tímar eru allir í boði. Tímarnir eru fyrir karla og konur og það er ánægjulegt að segja frá því að körlum er að fjölga hjá mér. Þú getur valið um tíma og mætt þegar þér hentar. Eina sem þarf að gera er að skrá sig á sporthusid.is og er hægt að skrá sig þrjá daga fram í tímann,“ segir Freyja en hvernig æfingar eru í Þitt form?
„Þetta byggist upp á einföldum æfingum sem miðast við að þátttakendur nái að hámarka brennslu og þjálfa upp þol og styrk. Mikil áhersla er lögð á að þjálfa allan líkamann. Gamla góða stöðvaþjálfunin í bland við skemmtilegar nýjungar og skorpuþjálfun. Fjölbreytni æfinga er mikil og mikilvægt að þjálfa alla vöðva líkamans. Það veit gamla fitness konan. Við notum alls kyns tæki, lóð, bjöllur, róðravélar, kaðla, teygjur og margt fleira. Svo erum við með góða tónlist svo allir séu vel „peppaðir. Endum á léttum teygjum þannig að allir fara út alsælir og glaðir eftir Þitt Form æfingu.“
Frábærar aðstæður í Sporthúsinu
Þitt form tímarnir eru í mjög góðum sal í Sporthúsinu en aðstæður þar eru eins og best verður á kosið en við spyrjum Freyju að því hversu oft í viku maður eigi að mæta til að ná árangri. „Ég mæli með a.m.k. þrisvar í viku en það er misjafnt. Sumir fara oftar en einhverjir líka sjaldnar, t.d. tvisvar í viku. Tímarnir eru 50–55 mínútur. Næsta mánudag 18. september byrjum við með átta vikna áskorun. Það finnst mörgum gott að fá aðeins meira aðhald sem áskorun vissulega er. Við munum verða með mælingar í upphafi, á miðju tímabili og í lokin og þeir sem standa sig best fá flott verðlaun. Við erum komin með verðlaun fyrir rúmlega eina milljón króna.“
Freyja segir að markmið séu nauðsynleg en þau geta verið allt frá því að mæta tvisvar, þrisvar í viku upp í háleitari markmið sem geta verið margs konar. En hver er munurinn á hópatímum eða fara bara ein(n) í tækjasal, með eða án leiðsagnar? „Bæði gott. Það er vissulega meiri stemmning í hópatímum og það er þekkt að hún er góð hjá okkur. Það er meira gaman og stemmningin er líka hvatning. En ég er líka að þjálfa sem einkaþjálfari því það hentar sumum betur. Mér finnst gaman að geta boðið upp á allskonar þjálfun því enginn er eins.“
Alltaf á hreyfingu
Sandgerðingurinn Freyja er gömul keppniskona í fitness, var ung að árum í því og náði góðum árangri. Hún keppti síðast árið 2012. „Það er orðið langt síðan og ég hef ekki losnað við hreyfingarþörfina síðan þá. Ég æfi sjálf iðulega tvisvar á dag og finnst ég alltaf þurfa að vera á hreyfingu,“ sagði Freyja og hló.
Skráning hefst í átta vikna áskorun 13. september í afgreiðslu Sporthússins í síma 421-8070. Þátttökugjaldið er sex þúsund krónur og þú þarft að vera í Þitt form áskrift til að taka þátt.
Freyja veitir nánari upplýsingar í tölvupósti á freyja@sporthusid en einnig er hægt að fá allar upplýsingar í Sporhúsinu á Ásbrú.