Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikilvæg stig til Grindavíkur
Föstudagur 24. júní 2005 kl. 02:18

Mikilvæg stig til Grindavíkur

Grindavík vann óhemjumikilvægan útisigur á Fram í kvöld, 0-1.

Grindvíkingum hefur ekki gengið sem skildi í upphafi leiktíðar en hafa nú haldið hreinu í þremur leikjum í röð ef bikarleikurinn gegn Stjörnunni er talinn með.

Grindvíkinga mættu frískir til leiks í Laugardalnum og sóttu stíft án þess þó að ná að brjóta ísinn þar til undir lok fyrri háfleiks. Þá kom Mounir Ahandour með boltann upp að vítateig Framara og renndi honum út til hægri þar sem Sinisa Kekic kom aðvífandi og renndi boltanum í netið framhjá Gunnari Sigurðssyni í markinu. Færið var þröngt en skotið var markvisst og öruggt.

Í síðari hálfleik óx Frömurum ásmegin í sókninni en það voru þó gestirnir sem fengu gullið tækifæri til að auka forskotið. Varnarmaður Fram klippti Paul McShane niður aftanfrá á 57. mín og dómarinnn benti á punktinn, en Óla Stefáni Flóventssyni brást bogalistin allverulega þegar hann lét Gunnar verja frá sér.

Á lokakafla leiksins sóttu Framarar án afláts en Grindvíkingar stóðu sóknirnar af sér ólíkt lokamínútunum í leikjunum gegn ÍA og Fylki fyrr í sumar. Þannig eru þrjú mikilvæg stig í höfn fyrir Grindvíkinga sem eru enn í 8. sæti, en nálgast nú liðin um miðja deild.

Mynd-sport.is/Pétur Ásgeirsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024