Mikil uppbygging og ný inniaðstaða hjá Golfklúbbi Grindavíkur
Mikil uppbygging hefur átt sér stað hjá Golfklúbbi Grindavíkur (GG) undanfarin ár og kannski mætti segja að hámarki hafi verið náð nýverið, þegar ný inniaðstaða opnaði en fullt er í golfherminn alla daga auk þess sem grindvískir golfarar æfa stutta spilið og púttin. Þótt ótrúlegt megi virðast, þá var það fyrst í lok árs 2021 sem inniaðstaða loksins opnaði. Betra er seint en aldrei á heldur betur við hér.
Ekki nóg með að ný inniaðstaða sé nýbúin að opna, þá eru framkvæmdir líka hafnar á nýju æfingasvæði við Húsatóftavöll. Á þessum tímamótum var gaman að setjast niður með, já eða öllu fremur að taka hring í Norður Dakota, n.t. á Hawktree golfvellinum með Sverri Auðunssyni, formanni GG. Sverrir hefur verið formaður á þessum miklu uppgangstímum GG undanfarin tvö ár en þar áður hafði hann gegnt gjaldkerahlutverkinu í klúbbnum. Sverrir er framkvæmdastjóri DHL á Íslandi en fyrirtækið hefur stóraukið umsvif sín að undanförnu og sökum anna í vinnunni þá hefur Sverrir ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem formaður GG. Það styttist í aðalfund GG og verður spennandi að sjá hver tekur við keflinu en hvernig kom til að Sverrir gekk í stjórn GG á sínum tíma og gerðist síðar formaður?
„Ég flutti til Grindavíkur árið 2009 en ég samdi við konuna mína að geta tekið golfið upp aftur en ég hafði aðeins stundað þessa íþrótt í Bandaríkjunum á háskólaárunum. Ég byrjaði hægt og rólega en fór fljótlega að reyna taka þátt í mótum til að kynnast sem flestum. Þáverandi formaður, Páll Erlingsson bað mig um að koma í stjórn árið 2012 og tók ég við gjaldkerastöðu klúbbsins þá og sinnti því allt til ársins 2019 en þá var ég á leiðinni út úr stjórn.“
Hvað breyttist?
Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið formlega í stjórn árið 2019 var ég vel viðloðandi reksturinn og var í góðu sambandi við stjórnarmeðlimi allt það ár. Það voru nokkur stór mál sem mér fannst klúbburinn hefði getað unnið betur það ár og þegar ég hitti Leif Guðjónsson stjórnarmann í Nettó í desember 2019 fór umræðan okkar sem oft áður í hver myndi verða næsti formaður, þann dag ólíkt öðrum gaf ég Leifi augnaráð þess efnis að ég væri tilbúinn að vera hluti af lausninni. Ég var til í það með því skilyrði að ráðist yrði í að laga ýmiss stór mál sem höfðu legið á hakanum, m.a. rangt félagatal hjá Golfsambandi Íslands, deilur um lóðarleigu hjá Fjársýslu ríkisins og svo slagandi skuldir þar sem félagsmönnum klúbbsins fór ekki fjölgandi. Helgi Dan Steinsson tók við framkvæmdastjórastöðunni á sama tíma og það var sömuleiðis mikil lyftistöng fyrir klúbbinn en í mínum huga var mikilvægt fyrir mig að stjórnin væri búinn að ráða inn mann sem kæmi inn með nýtt og ferskt hugarfar og sterka sýn á framtíð golfklúbbsins. Framundan væri verðugt verkefni þar sem rekstur golfklúbbsins var í árslok 2019, nánast á barmi gjaldþrots. Og ég sá það sem bæði áskorun og tækifæri að vera hluti af lausninni.“
Eldskírn
Þeir félagarnir, Sverrir og Helgi fengu eldskírn:
„Mér er minnisstætt að Helgi var ekki búinn að vera nema tvær vikur í starfi þegar mesta flóð sem hafði gengið yfir bakkana við Húsatóftavöll síðan 1914, gekk yfir 14. febrúar 2020. Byrjunin var því ekki gæfuleg en eins og allir vita þá hófst COVID heimsfaraldurinn stuttu síðar og kannski má segja að hann hafi verið ákveðið lán í óláni fyrir GG því íslenskir golfarar sem annars hefðu verið erlendis að spila golf, voru fastir á Íslandi og var Húsatóftavöllur fullur á vormánuðunum sem skilaði góðum og mikilvægum tekjum í kassann. Helgi tók sömuleiðis nýliðastarfið föstum tökum og varð gífurleg aukning í klúbbnum eða um 30% á þessu fyrsta ári. Tvö atriði sem eiga stóran hluta í skuldir klúbbsins lækkuðu um meira en 10 milljónir króna milli áranna 2019 og 2020.“
Frábært uppbygging
Af hverju er Sverrir stoltastur í sinni formannstíð?
„Fyrir það fyrsta þá kláruðum við öll þessi mál sem stóðu út af borðinu og á sama tíma höfum við fjölgað mikið í klúbbnum, þá sérstaklega kvenkylfingum og sömuleiðis hefur átak verið gert í að fjölga unglingunum. Helgi, Þorlákur Halldórsson og Hulda Birna Baldursdóttir hafa stýrt nýliða- og unglingaþjálfuninni, allt menntaðir PGA kennarar - við getum verið stolt að hafa verið með þrjá menntaða PGA kennara í þrjú hundruð manna golfklúbbi. Við erum einnig stolt að árið 2020 sendi GG í fyrsta skipti sveitir í fjórum flokkum í sveitakeppnir GSÍ (meistaraflokkur karla, meistaraflokkur kvenna, 50 ára eldri karla og svo loksins unglingaflokkurinn) og var það svo endurtekið árið 2021. Það eina sem stendur eftir er sveit 50 ára og eldri kvenna. Árangurinn hjá unglingunum í fyrra stendur upp úr en strákarnir komust í A-riðil þar sem keppt er um Íslandsmeistaratitilinn en að lokum enduðu strákarnir í 5 sæti. Þetta er til marks um þá frábæru uppbyggingu sem er í gangi í klúbbnum.
Ástandið á Húsatóftavelli var ekki upp á sitt besta og ekki leit beint vel út eftir flóðið 2020 en völlurinn hefur snarbatnað á undanförnum tveimur árum en Helgi hefur sömuleiðis stýrt umhirðu vallarins en með honum s.l. sumar voru þeir Finnur Jónsson og Hafþór Skúlason og eiga þeir stórt hrós skilið fyrir ástand vallarins og eru næstu verkefni klárlega að endurgera teiga og þá sérstaklega fremri teigana.
Ekki mál gleyma að loksins tókst okkur að ljúka landadeilu sem setti framtíð neðri vallarins við bakkana í hættu nú rétt fyrir opnum í fyrra. En með aðstoð frá Grindavíkurbæ var það mál leyst og framtíð 18 holu golfvallarins í Grindavík þar með tryggt. Og er Grindavíkurbæ hér með þakkað kærlega fyrir sína aðkomu að því máli.“
Kannski er ég einna stoltastur að hafa fengið að vera hluti af stjórn golfklúbbsins í nær áratug og fá að vinna með og kynnast fullt af frábæru fólki í Grindavík og er ég afar þakklátur fyrir hversu vel mér hefur verið tekið og þá sérstaklega í formannshlutverkinu.
Hvernig líst Sverri á framtíð golfsins í Grindavík og bara á Íslandi yfir höfuð?
„Eftir erfiða byrjun þá má segja að vindurinn sé búinn að vera í seglin. GG átti 40 ára afmæli í fyrra og af því tilefni var gefið út stórglæsilegt afmælisrit. Blaðið fór fram úr björtustu vonum og þá sérstaklega hvað varðar tekjuhliðina en á sama tíma var endursamið við flesta af okkar frábæru styrktaraðilum. Þeim er aldrei hægt að fullþakka og nokkuð ljóst að ef væri ekki fyrir þeirra velvilja, þá væri rekstur svona klúbbs erfiður. Þessi tekjuaukning gerði okkur kleift að opna þessa glæsilegu inniaðstöðu og eins og sést á meðfylgjandi myndum þá mun æfingaaðstaðan við Húsatóftavöll taka gagngerum breytingum en stefnt er á að taka þetta æfingasvæði í notkun árið 2023-2024. Framtíð GG er björt og mun ég að sjálfsögðu styðja komandi formann og stjórn í áframhaldandi uppbyggingu hjá golfklúbbnum. Ég hvet um leið aðra félagsmenn til að láta gott af sér leiða og taka þátt í þessari vegferð hjá golfklúbbnum.
Þegar flæddi yfir bakkana 2020 þá olli mér vonbrigðum að enginn frá GSÍ skyldi hafa samband við okkur, þó ekki væri nema bara að kanna hvernig við hefðum það. Mig grunar að ef stærri klúbbur og hvað þá klúbbur á höfuðborgarsvæðinu hefði lent í þessu, að þá hefði GSÍ kannað stöðu mála en ekkert heyrðist. Því gladdi mig má segja þegar Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ hafði samband um daginn þegar það flæddi aftur yfir bakkana í einu af óveðrunum sem hefur gengið yfir okkur á þessu ári. Það segir mér að breyttur hugsunargangur sé hjá GSÍ og vonandi að betur verði hlúð að litlu klúbbunum úti á landi. Það er gífurleg uppsveifla í golfíþróttinni á Íslandi og bara bjartir tímar framundan held ég.“
Eitthvað að lokum?
„Ég mun halda ótrauður áfram minni golfiðkun og er stefnan tekin á að komast í sveit GG í sveitakeppninni ... - 50 ára og eldri árið 2025! Ég mun áfram leggja mig fram við að spila með sem flestum en maður er manns gaman að mínu mati. Ég hvet alla golfara til að gera slíkt hið sama, ekki síst meðlimi GG. Þegar ég gekk í klúbbinn á sínum tíma þá fannst mér þetta vera svolítið lokað samfélag og þá er erfiðara fyrir nýliða að kynnast fólki. Ég setti mér það markmið þegar ég hóf mína formannstíð árið 2020, að spila með 20 félagsmönnum sem ég hafði aldrei spilað með áður og tókst mér að uppfylla markmiðið og gott betur, 24. Fleiri bættust við í fyrra og vonandi mun þeim fjölga enn meira á komandi árum.
Sjáumst á golfvellinum í sumar!“
Að þessum orðum loknum kláruðum við Sverrir hringinn í „blíðunni“ í N-Dakota og fyrir forvitna þá má geta þess að undirritaður vann – með forgjöf…
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson.