Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mikil spenna á toppi 3. deildar
Víðismenn fagna marki í fyrri viðureign Víðis og Kormáks/Hvatar. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 21. ágúst 2022 kl. 10:58

Mikil spenna á toppi 3. deildar

Það má segja að allt sé í hnút á toppi 3. deildar en fjögur lið eru í harðri baráttu um tvö efstu sætin. Víðismenn eru í þriðja sæti eftir 3:1 sigur á Kormáki/Hvöt en lið KFG, sem var á toppnum fyrir síðustu umferð, missteig sig þegar það gerði jafntefli við Kára og féll niður í fjórða sæti fyrir vikið.

Leikur Kormáks/Hvatar og Víðis var leikinn á Blönduósi og hann fór ekki vel af stað hjá Víðismönnnum en Kormákur/Hvöt komst yfir með marki úr vítaspyrnu á 17. mínútu. Þannig stóðu leikar lengi vel, 1:0 fyrir heimamenn, en góður kafli Víðis í seinni hálfleik tryggði þeim að lokum sigur.

Það var markahrókurinn Jóhann Þór Arnarsson sem jafnaði leikinn með marki úr vítaspyrnu (61') og þeir Andri Fannar Freysson (65') og Atli Freyr Ottesen Pálsson (72') tryggðu Víði mikilvægan sigur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Staðan á toppi deildarinnar er mjög jöfn og tvísýn. Í efsta sæti er Sindri með og Dalvík/Reynir er í öðru sæti, bæði lið með 34 stig og munar aðeins einu marki á markahlutfalli þeirra. Víðir er í þriðja sæti með 32 stig og jafnir þeim er KFG en einu marki lakara markahlutfall.

Eins og sést má ekkert lið misstíga sig í lokaumferðum deildarinnar. Víðir mætir Vængjum Júpiters á þriðjudag heima en fer næsta laugardag á Dalvíkurvöll og mætir Dalvík/Reyni. Sá leikur gæti ráðið miklu um hvort Víðismenn komi til með að leika í 2. deild að ári.