„Mikil samkeppni um margar stöður“
- „Markmið okkar er að vera í efri hlutanum í þessari sterku deild,“ segir Guðjón Árni, þjálfari Víðis
Knattspyrnuliðinu Víði Garði er spáð 9. sætinu i 2. deild karla í knattspyrnu en litlu munaði að þeir kæmust upp í Inkasso-deildina í fyrra. Þjálfari Víðis, Guðjón Árni Antoníusson, tók við liðinu á miðju síðasta tímabili en hann er fæddur og uppalinn í Garðinum. Guðjón svaraði nokkrum spurningum fyrir Víkurfréttir um undirbúningstímabilið, leiðtoga liðsins og styrkleika.
Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?
Það hefur gengið upp og ofan, liðið hefur verið lengi að koma sér saman og úrslitin eftir því. En æfingarnar hafa gengið ágætlega fyrir sig.
Hvernig er staðan á hópnum?
Staðan á hópnum er góð og allir er að verða klárir en það er mikil samkeppni um margar stöður.
Hvert er markmið sumarsins?
Markmiðið er klárlega að vera í efri hlutanum í þessari jöfnu deild.
Ætlið þið að fá fleiri leikmenn til ykkar áður en leikmannaglugginn lokar?
Erum ekki að leita en maður veit aldrei hvað gerist í þessum bransa. Annars eiga Sigurður Þorbjörn og Sveinn Ólafur eftir að skipta yfir.
Er einhver leikmaður sem þú vilt nefna sem hefur sýnt framfarir í vetur eða bindur miklar vonir við?
Nei, eiginlega ekki, bind miklar vonir við alla mína leikmenn.
Hver er leiðtoginn í hópnum og heldur leikmönnum saman?
Það eru nokkrir leiðtogar í hópnum en Björn Bergmann Vilhjálmsson er límið.
Skiptir stuðningurinn máli?
Að sjálfsögðu gerir hann það, það er mikill fótboltaáhugi í Garðinum og margir sem hafa skoðanir og láta sig félagið sitt varða.
Hver er ykkar styrkleiki/veikleiki?
Styrkleikinn okkar sem getur snúist upp í veikleika er liðsheildin og samheldnin.