„Mikið ævintýri að fá að vera hluti af íslenska landsliðinu“
-segir Jóhanna Margrét Snorradóttir, hestakona úr Mána
Jóhanna Margrét Snorradóttir, hestakona úr Mána, náði á dögunum þeim glæsilega árangri að lenda í 2. sæti í slaktaumtölti í flokki ungmenna á heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem að fram fór í Herning í Danmörku. Jóhanna og hestur hennar, Stimpill frá Vatni, kepptu einnig í fjórgangi á mótinu og voru hluti af sterku íslensku landsliði sem gerði virkilega fínt mót og nældi í 8 gull-,7 silfur- og þrjú bronsverðlaun. Jóhanna gaf sér tíma til að spjalla við blaðamann Vikurfrétta í vikunni um mótið og hestamennskuna í lífi hennar.
„Við Stimpill eigum okkur ekki langa sögu saman en góð er hún samt sem áður. Við kynntumst bara núna í vor þegar ég fór að vinna á Árbakka sem er hestabúgarður rétt við Hellu. Þar býr kærastinn minn og fjölskylda, þau voru svo góð að lána mér hann með það sem markmið að komast í landsliðið.“ -sagði Jóhanna aðspurð um samstarf hennar og Stimpils. „Þá byrjaði ég að þjálfa hann og kepptum við fyrst saman í úrtöku fyrir heimsmeistaramótið sem gekk nokkuð vel. En eftir það mót var ekki enn búið að fullskipa liðið og var ég því ekki alveg örugg inn í liðið eftir það mót. Íslandsmótið var svo þremur vikum seinna og gekk það enn betur þar sem við urðum íslandsmeistarar í samanlögðum fjórgangsgreinum, en við urðum í fjórða sæti í þeirri keppni úti á heimsmeistaramótinu. Eftir Íslandsmótið vorum við valin í landsliðið og lá leið okkar þá til Herning í Danmörku.“
Frá keppninni í Herning
Jóhanna hafði ekki orðið þess heiðurs hljótandi áður að keppa fyrir Íslands hönd og var ekki í nokkrum vafa með hvers virði það var að fá að taka þátt í slíku stórmóti.
„Þetta var rosalega skemmtileg upplifun að fá að taka þátt í úrslitum á heimsmeistaramóti. Þetta er allt öðruvísi en að keppa á mótum hérna heima, þarna er maður með nokkur hundruð af íslendingum í stúkunum að hvetja mann áfram. Ég er mjög ánægð með silfrið sem ég fékk en aftur á móti líka aðeins súrt því ég var örstutt frá sigri, aðeins ein 0,5 hjá einum dómara hefði verið mér næg til sigurs. En þetta var mikið ævintýri að vera hluti af íslenska landsliðinu.“
En var Jóhanna sjálf búin að setja sér einhver sérstök markmið fyrir mótð?
„Já, ég setti mér háleit markmið fyrir mótið og stefndi að sjálfsögðu allan tímann á sigur í minni aðalgrein sem var slaktaumatölt. Þetta var mjög svo raunhæft markmið og vorum við örstutt frá sigri en ég er bara mjög sátt með silfrið.“
Það vita það flestir sem komið hafa nálægt hestamennsku að ástundun er krefjandi í kringum þjálfun og umhirðu á hrossunum og er það engin undantekning í tilfelli Jóhönnu
„Hestamennska tekur mjög mikinn tíma ef þú ætlar að gera þetta af einhverri alvöru. Því fleiri hesta sem þú tekur að þér að hugsa um og þjálfa því meiri tíma tekur þetta og oftast í mínu tilfelli að minnsta kosti þá hef ég alltaf verið með frekar fleiri en færri hesta og því mest af mínum frítíma farið í hestastúss. En það er ekkert skemmtilegra en þegar þessi vinna skilar góðum árangri.“
Það er enginn vafi á því að Jóhanna hefur mikinn metnað fyrir því sem henni finnst skemmtilegast að gera. Það endurspeglast líka í næstu skrefum í hennar lífi en hún hyggur á gera hestamennskuna að meira en bara áhugamáli til lengri tíma.
„Eins og staðan er í dag þá stefni ég á að gera þetta að atvinnu í framtíðinni. Núna í haust er ég að fara norður í Hjaltadalinn í Háskólann á Hólum að læra hestafræði. Þetta nám eru 3 ár og útskrifast ég þá með BS í reiðmennsku og reiðskennslu. Þetta er magnaður skóli og er ég mjög spennt að fara læra enn og meira um hestamennsku. Að mínu mati er maður aldrei búinn að læra nóg um reiðmennsku, það er alltaf hægt að læra meira.
Að sjálfsögðu stefni ég á að ná langt í hestamennskunni, vonandi að næla sem fyrst í heimsmeistaratitil og vonandi nokkra fleiri í framtíðinni.“