Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Metnaðarfullur Boltaskóli hjá Frey Sverrissyni
Fimmtudagur 22. september 2011 kl. 14:35

Metnaðarfullur Boltaskóli hjá Frey Sverrissyni

Knattspyrnuþjálfarinn góðkunni Freyr Sverrisson segist ekkert vera á þeim buxunum að segja skilið við yngri flokka þjálfun, þar liggur áhuginn ennþá. Hann er yngri flokka þjálfari hjá Haukum í Hafnarfirði og hefur um 10 ára skeið getið sér gott orð sem þjálfari yngri landsliða Íslands. Í sumar fór Freyr af stað með Boltaskóla Freys þar sem ungir knattspyrnukappar geta bætt sig á öllum sviðum knattspynu undir leiðsögn Freys.

Freyr segist fyrst og fremst hafa farið af stað með þetta verkefni vegna gríðarlegs áhuga á knattspyrnuþjálfun, og í nútímaþjóðfélagi séu krakkar lítið að æfa sig fyrir utan þessar hefðbundnu æfingar hjá sínum félögum.

„Það er hins vegar aukaæfingin sem skapar meistarann og með því að geta boðið upp á námskeið sem taka fyrir ákveðna þætti knattspyrnunnar og þannig geti ungir knattspynumenn bætt sig,“ segir Freyr sem býður upp á námskeið þar sem einblínt er á einhvern einn ákveðinn þátt fótboltans í hvert sinn.

Nú á dögunum var hann t.d. með námskeið í Reykjaneshöll sem eingöngu sneri að sendingum og var það vel sótt af ungmennum alls staðar af Suðurnesjum. „Þarna gefst krökkum færi á því að auka við sína þekkingu og sömuleiðis að kynnast krökkum frá öðrum félögum, þetta er ekki ósvipað og gerist þegar þú ert kallaður til æfinga hjá landsliðum,“ segir Freyr.

Ferð úr 103 í 203


Námskeiðin eru þannig sett upp að þú getir sótt námskeið á þeim sviðum fótboltans sem að þú vilt helst bæta hjá þér, hvort sem það er varnarleikur, gabbhreyfingar eða móttaka bolta. „Það hefur oft verið gallinn með svona námskeið að oft er endurtekið efni í gangi, ég hef hugsað þetta þannig að þú hafir meira val, þú ferð jú í 203 þegar þú hefur lokið 103 í framhaldsskólanum.“


Freyr hóf námskeiðin á Laugarvatni í sumar og segir að viðbrögðin hafi verið virkilega góð. Á næsta ári stendur til að auka við þau námskeið og svo stendur til að færa út kvíarnar. „Maður sér alveg fyrir sér að hingað komi jafnvel krakkar að utan til að sækja Boltaskóla Freys, annars er maður bara að hugsa upphátt,“ segir Freyr að lokum en ekki er óalgengt að íslensk ungmenni sæki slíka skóla erlendis.

VF-Myndir og texti [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024