Metabolic komið til að vera
„Þetta fyrsta ár Metabolic fór svo langt fram úr öllum okkar væntingum að við ákváðum að stíga stóra skrefið í tilefni af eins árs afmæli okkar og flytja í eigin aðstöðu. Þannig getum við boðið iðkendum okkar upp á enn betri þjónustu og meira úrval tíma,“ segir Helgi Jónas Guðfinnsson, eigandi Metabolic en þjálfunarkerfið Metabolic flytur í glæsilegt 400 fermetra húsnæði að Smiðjuvöllum 5 þar sem Húsasmiðjan og Blómaval voru áður til húsa.
Fólk vill fá markvissa þjálfun en ekki bara aðgang að tækjum
„Metaboliciðkendur í Reykjanesbæ eru orðnir fjölmargir og því nokkuð ljóst að við vorum að uppfylla einhverja þörf“ segir Helgi. „Hjá okkur mætir fólk ekki með Ipodinn með sér og æfir eitt í sínu horni heldur æfir alltaf undir leiðsögn þjálfara í frábærum hópi, mikilli stemningu og eftir markvissu æfingakerfi. Við leggjum gríðarlega áherslu á að fólk fái góða upplifun af því að æfa og hlakki til að mæta á æfingu og svo virðist sem þetta hafi tekist nokkuð vel hjá okkur. Þetta er að verða skemmtilegt samfélag sem gott er að tilheyra. Iðkendahópurinn samanstendur af mjög venjulegu og skemmtilegu fólki á öllum getustigum, allt frá byrjendum og upp í fólk í fantaformi. Ég sjálfur hlakka enn alltaf til að kenna hvern tíma.“
Við spyrjum Helga út í þann ljóta stimpil sem hóptímaþjálfun hefur fengið á sig fyrir að ganga of nærri fólki. Helgi segir eina af ástæðunum fyrir því að hann hannaði Metabolic var að honum fannst vanta markvissa og faglega hópþrektíma fyrir venjulegt fólk. „Við leggjum gríðarlega mikið upp úr öryggi í þjálfun. Við höldum reglulega nýliðatíma þar sem við kennum fólki að framkvæma helstu æfingarnar sem við notum í Metabolic og gerum á því hreyfigreiningar til að sjá hvort iðkendur séu með einhverja veikleika í hreyfikeðjunni sem stuðlar að stoðkerfisvandamálum og leiðir gjarnan til meiðsla þegar fólk fer að æfa. Iðkendur fá svo leiðréttingaræfingar eftir þörfum og við gætum þess að finna sérstakar æfingar fyrir þá sem eru með einhver vandamál eins og í hnjám eða baki. Auðvitað er aldrei hægt að útiloka meiðsli en við gerum alla vega allt sem við getum til að lágmarka þau og brýnum fyrir fólkinu okkar að fara rólega af stað“ segir Helgi.
Nú er Metabolic að færast frá íþróttasal í sitt eigið húsnæði. Verður einhver breyting á starfseminni?
Nýja húsnæðið okkar er draumi líkast. Í dag samanstendur iðkendahópurinn okkar af mjög venjulegu og góðu fólki á aldrinum 20-50 ára. Það er þó nokkuð mikið um pör og hjón sem æfa saman hjá okkur og munum við því bjóða upp á barnapössun í nýja húsnæðinu sem við gátum ekki áður. Við munum bjóða upp á holl og orkumikil boozt eftir æfingar og ýmiskonar hollt snarl. Eins munum við bjóða upp á lífræn fæðubótarefni og fatnað til sölu. Metabolic hefur líka þarna tækifæri til að þróast. Fyrir aftan höfum við aðgang að stóru útisvæði sem kemur sér einstaklega vel á sumrin.
Við erum að útfæra leiðir til að gera það enn meira krefjandi fyrir þá sem eru lengra komnir hjá okkur og eins erum við að útfæra Metabolic fyrir karla og konur 50 ára og eldri sem byggir á mýkri styrktar- og úthaldsþjálfun með aukinni áherslu á jafnvægisþjálfun. Höfum fengið mikla hvatningu fyrir þessu, frá t.d. golfurum og félagsklúbbum.
Lokuð átaksnámskeið fyrir karla og konur
Víkurfréttir fjölluðu um áramótin um átaksnámskeið sem var að hefjast í Metabolic. „Við bjuggumst við að fá svona 20 konur en fyrsta námskeiðið fylltist á þremur dögum og aukanámskeiðið á öðrum tveimur dögum“ segir Helgi. Þarna byrjuðu því 60 konur hjá okkur og 90% þeirra urðu svo fastir áskrifendur hjá okkur. Við ætlum að endurtaka konunámskeiðið og verður það sem fyrr í umsjón Dunnu og Ingu og Ásdís Ragna grasalæknir verður með fræðslu um mataræðið. Það hefur mikið verið spurt um lokað karlaátak og ætlum við að taka þeirri áskorun núna. Menn tala um að það hafi ekki verið almennilegir karlaþrektímar í boði í bænum síðan Brói var hér í denn. Sjálfur mun ég þjálfa strákana í lokuðum karlatímum og reyna að fá þá til að hugsa aðeins um hvað þeir setja ofan í sig. Hvet endilega vinnufélaga og vinahópa til að koma saman, þannig verður þetta enn skemmtilegra og meiri stuðningur í nánasta umhverfi.“
Helgi nú ert þú kannski hvað þekktastur fyrir þjálfun íþróttamanna. Sérðu fyrir þér að nýta nýju aðstöðuna eitthvað fyrir íþróttamenn?
„Já, ekki spurning. Öll styrktar- og ástandsþjálfun hjá mér byggir á sömu hugmyndafræðinni og nýja húsnæðið mun því nýtast íþróttamönnum mjög vel hvort sem ég mun nýta það fyrir félögin á svæðinu eða einstaklinga. Það verður algjör lúxus að geta loksins boðið afreksmönnum upp á alvöru aðstöðu til þjálfunar þar sem við höfum nóg pláss til að geta lyft, hlaupið spretti og hoppað til dæmis.
Nú er Metabolic bæði í Reykjanesbæ og í Grindavík. Er stefnan sett á að fara á fleiri landssvæði?
Við byrjuðum á þessum tveimur stöðum fyrir ári síðan en opnuðum svo líka á Álftanesi og í Eyjum. Nú eru svo að bætast við Akranes, Blönduós, Borgarnes, Ísafjörður, Kópavogur, Neskaupstaður og Stykkishólmur. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér fyrir ári síðan að þetta yrði staðan í dag og mörg þessara svæða eru nú þegar orðin uppseld fyrir haustið.
Við höfum verið mjög heppin með þjálfara enda valið þá sérstaklega út frá hæfni og ekki síður karakter. Þær Dunna og Inga hafa verið með mér hér í Reykjanesbæ og báðar notið mikilla vinsælda meðal iðkenda en við sjáum líka fyrir okkur að bæta við þjálfurum í vetur. Við erum þrjú sem rekum Metabolic. Gunnhildur Vilbergsdóttir sem var forstöðumaður Heilsuskóla Keilis og Adda konan mín sjá um allt utanumhald og skipulag en sjálfur vil ég eyða mínum tíma í að þróa æfingakerfin okkar enn frekar og þjálfa.“
Ljósin verða kveikt á Ljósanótt
Það er svo sannarlega mikið líf að fæðast í gömlu Húsasmiðjunni. Auk Metabolic er Danskompaní að koma sér fyrir og segist Helgi nú þegar vita um marga foreldra dansiðkenda sem hrósa nú happi yfir því að geta stundað Metabolic á meðan barnið er í dansi. ,,Það er rúmlega 100 fermetra húsnæði laust á milli okkar og við viljum endilega að það komi heilsutengd starfsemi þar inn.“ segir Helgi og bætir við að húsnæðið henti vel fyrir meðferðaraðila eins og sjúkraþjálfara, nuddara, osteopata, grasalækna, næringarráðgjafa o.þ.h.
„Við stefnum á að opna nýju aðstöðuna með pompi og prakt á Ljósanótt en þangað til erum við með æfingar í íþróttahúsinu á Ásbrú. Það verður opið hús hjá Metabolic og hjá nágrönnum okkar í Danskompaní á föstudag og laugardag á Ljósanótt og við vonumst til að sem flestir komi og skoði hjá okkur,“ segir Helgi að lokum.