Menn eru að fullorðnast
Njarðvíkingar fara í Hólminn í kvöld
Njarðvíkingar hafa verið sjóðheitir að undanförnu í Domino’s deild karla í körfubolta. Þeir grænklæddu hafa verið á mikilli sigurgöngu en átta af síðustu tíu deildarleikjum hafa endað með sigri þeirra. Eflaust eru margar ástæður fyrir góðu gengi þeirra og leikir sigrast sjaldnast nema liðsheildin sé að skila sínu. Þó má færa rök fyrir því að Ólafur Helgi Jónsson hafi átt stóran þátt í sigurgöng Njarðvíkinga. Ólafur sem er tvítugur og einn af efnilegri leikmönnum Njarðvíkinga, var ekki að leika vel fyrir áramót, hann viðurkennir það fúslega. Nú er úrslitakeppnin framundan og þar mæta Njarðvíkingar Snæfellingum. Þeir úr Stykkishólminum unnu báða leikina í deildinni, nú síðast fyrir nokkrum dögum 83-79.
„Snæfell er gott lið og við þurfum að gera vel til þess að vinna þá. Við erum á góðu skriði og trúum á okkur sjálfa,“ segir Ólafur Helgi en rimman við Snæfell leggst vel í hann. „Í úrslitakeppninni í fyrra vorum við bara með. Nú ætlum við okkur að gera betur og vinna leiki.“
Ólafur segir ekki hægt að svara því svo glatt hvers vegna Njarðvíkingar hafi hrokkið í gang eftir áramót. Hann telur að liðið hafi byrjað að spila betur saman sem heild og æfingar hafi orðið ákafari. Eins hafi menn farið að vinna meira í sínum málum á aukaæfingum. Eftir stóran sigur á Skallgrímsmönnum á heimavelli um miðjan janúar fór snjóboltinn af stað. Í kjölfarið fylgdi sigur á ÍR-ingum sem veitti Njarðvíkingum ákveðið sjálfstraust að sögn Ólafs. Njarðvíkingar töpuðu næsta leik gegn deildarmeisturum Grindavíkur en næstu sex leikir voru sigurleikir. Sigurgangan var svo stöðvuð á Stykkishólmi á dögunum.
Ólafur Helgi æfði vel fyrir tímabilið og mætti til leiks í fanta formi. Eitthvað virtist þó vanta upp á. „Þetta var ekki alveg að ganga upp fyrir mig. Kannski var það lítið sjálfstraust.“ Vegna vinnu náði Ólafur ekki að fara á morgunæfingar eins og hann var vanur. Eftir að Ólafur hætti í vinnu og fór að stunda morgunæfingar þá kom þetta hægt og bítandi hjá honum. „Ég hef verið að vinna í mínum málum með Einari (Árna Jóhannssyni) þjálfara. Við höfum verið að vinna í skotinu mínu og með hugarfarið aðallega.“ Ólafur segir að Njarðvíkingar hafi átt hann inni fyrir áramót. „Ég var ekki að standa mig fyrir áramót. En eftir að sjálfstraustið kom þá virtist fara að ganga betur,“ segir Ólafur sem á liðsfélögum sínum mikið að þakka. Þeir hafi stutt við bakið á hvor öðrum.
Til þess að vinna leiki telur Ólafur að framlag verði að koma frá fleiri leikmönnum. Erlendu leikmennirnir og Elvar Már Friðriksson leikstjórnandi hafa borið uppi stigaskorun liðsins. „Við erum búnir að vera að smella betur saman og stíga upp margir hverjir að undanförnu.“
Njarðvíkingar fóru ekki á taugum þrátt fyrir slakt gengi fyrir áramót. Þeir skiptu um erlendan leikmann og það tók sinn tíma að aðlaga nýjan mann að leik liðsins. Ólafur segir að það hafi verið nokkrir leikir sem þurftu nauðsynlega að vinnast eftir áramót og liðið hafi staðist pressuna þegar á þurfti að halda. Ólafur segist sjá mikinn mun á ungu leikmönnunum frá því í fyrra. „Menn eru að fullorðnast. Viðhorfið er allt annað. Maður er ekkert smeykur við neinn núna, enda ættum við ekki að vera það.“
Elvar hvergi nærri saddur
Elvar Már Friðriksson hefur verið frábær hjá Njarðvíkingum það sem af er tímabili. Ólafur eys Elvar Má lofi en hann telur félaga sinn vera einn besta leikmann deildarinnar. „Það verður mikill missir að Elvari þegar hann fer. Ég efast ekki um að hann fari út. Ef ég á að segja eins og er þá finnst mér hann einn besti íslenski leikmaður deildarinnar. Það eru ekki margir sem geta haldið honum í skefjum.“ Elvar hefur verið duglegur að æfa og Ólafur segir hann vera að uppskera eftir því. „Þó svo að hann hafi átt gott tímabil þá er hann enn að vinna á fullu í að bæta sig. Hann hættir aldrei og er ekki orðinn saddur. Eins og Kanarnir segja um hann „sky is the limit,“ segir Ólafur að lokum.
Framlag Ólafs Helga
Fyrir áramót var Ólafur Helgi að skila 3,5 framlagsstigum í hús fyrir Njarðvíkinga í leik. Eftir áramót hefur Ólafur verið að skila tæplega 11 framlagsstigum í leik. (Framlagsstig eru reiknuð svo: stig, blokk, fráköst, stolnir boltar, klikkuð skot, tapaðir boltar.)
Frá því í áðurnefndum sigurleik gegn Skallagrími hefur Ólafur skorað að meðaltali tæp 12 stig í leik. Fyrir þann leik var Ólafur með rúm 2 stig að meðaltali í leik. Njarðvíkingar hafa unnið 8 af þeim 10 leikjum síðan þá. Fyrir áramót var Ólafur einungis að spila rúmar 12 mínútur í leik. Eftir áramót eru mínúturnar orðnar að meðaltali 20 í leik. Fyrir áramót var ekki einn leikur sem Ólafur fékk að leika 20 mínútur í deildinni.