Meistararnir niðurlægðir
Íslandsmeistarar Vals guldu algjört afhroð í heimsókn sinni á Sparisjóðsvöllin í Keflavík í dag, en heimamenn fóru með öryggan sigur af hólmi, 5-3. Raunar segja lokatölur ekki alla söguna því að Valsarar náðu að rétta sinn hlut með tveimur mörkum undir lokin.
Keflvíkingar fengu til sín nokkra nýja menn frá síðustu leiktíð og voru tveir þeirra ekki lengi að stimpla sig inn. Daninn Hans Mathiesen stakk boltanum á Patrik Redo upp við endalínuna í fyrstu sókn Keflvíkinga. Redo skaut föstu skoti úr þröngu færi sem Kjartan Sturluson í marki Valsara sló út í teig, en þar var Mathiesen kominn og skoraði örugglega. 1-0 og innan við mínúta liðin a leiknum.
Færeyingurinn Símun Samúelsen er kominn til Keflavíkur á ný eftir að hafa farið að láni til Noregs síðasta ár. Hann var heldur ekki lengi að minna á sig því hann gerði annað mark Keflvíkinga á 5. mínútu. Há sending Guðmundar Mete barst upp að teig Valsara og Símun lyfti knettinum hátt fyrir Kjartan og í markið.
Þessi öfluga byrjun kom meisturunum í opna skjöldu og má segja að þeir hafi aldrei náð flugi eftir það. Staðan var óbreytt fram að hálfleik en Valsarar voru lengst af í bílstjórasætinu. Þeir hefðu getað minnkað muninn á 25. mínútu, en Ómar Jóhannsson í marki Keflavíkur varði glæsilega skot Pálma Rafns Pálmasonar sem stefndi efst í markhornið. Ómar átti annars skínandi góðan leik og var ekki hægt að kenna honum um mörkin sem komu á hann.
Heimamenn hófu seinni hálfleikinn líkt og þann fyrri, með mikilli pressu, og voru hérumbil búnir að auka muninn á 50. mínútu þegar varnaraður Vals varði skot Símuns á línu og Patrick Redo skallaði í kjölfarið í stöng.
Sex mínútum síðar hljóp René Carlsen Magnús Þorsteinsson niður í teignum og Kristinn Jakobsson, ágætur dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu sen fyrirliðinn Guðmundur Steinarsson skoraði úr af fádæma öryggi.
Í stöðunni 3-0 bjuggust flestir við því að úrslitin væru ráðin, en Kenneth Gustavsson varð fyrir því óláni að skalla knöttinn í eigið net á 60. mínútu.
Sú gleði reyndist gestunum skammvinn því að í næstu sókn slapp Guðmundur Steinarsson einn innfyrir og renndi boltanum framhjá Kjartani.
Ljótt atvik átti sér stað í kjölfar marksins þar sem einn áhorfandi í Valsstúkunni henti plastflösku í átt að aðstoðardómara. Voru stuðningsmenn gestanna ósáttir við að mark Guðmundar hafi ekki verið dæmt af sökum rangstöðu. Er nokkuð víst að einhverjir eftirmálar verði af þessu atviki.
Áhorfendur voru annars til mikillar fyrirmyndar. Nær 2000 manns mættu á völlinn og sungu hátt og studdu hvort sína menn dyggilega.
Úrslitin réðust svo endanlega á 78. mínútu þegar bakvörðurinn Guðjón Árni Antoníusson skoraði fimmta markið eftir góðan undirbúning Harðar Sveinssonar sem kom inná í seinni hálfleik og átti góða spretti líkt og Hólmar Örn Rúnarsson, en þeir félagar gengu til liðs við liðið að nýju í gærkvöldi.
Keflvíkingar stigu af bensíngjöfinni undir lok leiks og fengu þar á sig tvö óþarfa mörk. Hafþór Ægir Vilhjálmsson skoraði það fyrra á 86.
Mín, og Bjarni Ólafur Eiríksson það seinna úr aukaspyrnu á 89. mínútu.
Hafþór lauk svo þáttöku sinni í leiknum þegar 90 mínúturnar voru liðnar, en hann fékk rautt spjald fyrir hressilega tæklingu á Hólmar Örn.
Keflvíkingar voru í skýjunum í leikslok, enda hafa Valsarar farið illa með þá á Keflavíkurvelli síðustu tvö árin. Meistararnir voru algerlega slegnir út af laginu en nú má öllum vera ljóst að þetta Keflavíkurlið getur hæglega velgt „stóru klúbbunum“ undir uggum.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að hann væri gríðarlega sáttur við leikinn. „Þetta var stórt og erfitt próf sem við fórum í og við stóðumst það með glans,“ sagði hann og bætti því við að þeir höfðu lagt mikið upp úr varnarleiknum.
Við stefndum að því að koma þeim svolítið í opna skjöldu með þvíað sækja grimmt á þá á fyrstu mínútunum. Þeir eru ríkjandi meistarar og það hefur gengið gríðarlega vel hjá þeim undanfarið þannig að það var lagt upp með að keyra á þá strax.“
Þeir komu nú samt aldeilis til baka og breyttu stöðunni í 5-3 og það er eitthvað sem við þurfum að skoða. Að við séum að fá á okkur tvö mörk og missa niður einbeitinguna eftir að hafa verið einbeittir í öllum leiknum. Ég er ósáttur við það að við skulum hafa fengið á okkur svona mörg mörk.“
Kristján sagði að lokum að nú myndi hann hrósa strákunum sínum fyrir frammistöðu sína í leiknum, en lagði þó áherslu á að nú væru þrjú stig komin í hús og það þyrfti að sækja fleiri.
VF-myndir/Þorgils - Veglegt myndasafn er á Ljósmyndavef VF og viðtal við Kristján þjálfara er væntanlegt á VefTV.
VF-myndir/Þorgils - Veglegt myndasafn er á Ljósmyndavef VF og viðtal við Kristján þjálfara er væntanlegt á VefTV.