Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Meistaraflokkur kvenna orðinn að veruleika hjá Njarðvík
Dagmar Þráinsdóttir á æfngu með meistaraflokki Njarðvíkur. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 7. maí 2023 kl. 06:31

Meistaraflokkur kvenna orðinn að veruleika hjá Njarðvík

Það var stórt skref stigið í uppbyggingu kvennaknattspyrnu á Suðurnesjum um síðustu helgi þegar kvennalið Njarðvíkur lék sinn fyrsta opinbera leik í knattspyrnu. Njarðvík tók þá á móti Grindavík í Mjólkurbikar kvenna og lauk leiknum með sex marka sigri Grindvíkinga en það er óhætt að segja að Njarðvíkingar hafi staðið sig vel í þessari frumraun sinni. Víkurfréttir ræddu við Dagmar Þráinsdóttur, annan spilandi þjálfara liðsins, en hinn þjálfarinn, Arna Lind Kristinsdóttir, stóð á milli stanganna í leiknum.

Arna Lind Kristinsdóttir, annar tveggja spilandi þjálfara liðsins, stóð oft í stórræðum á milli stanganna í fyrsta leik liðsins. Hér ver hún vel gott skot Grindvíkinga.

Byrjaði í fótbolta hjá Reyni Sandgerði

Dagmar æfði í yngri flokkunum hjá Sandgerði en fór svo til Grindavíkur þegar þar var sameiginlegt lið GRV (Grindavík, Reynir og Víðir). „Svo slitnaði eitthvað upp úr samstarfinu og ég varð eftir í Grindavík, átti mjög góðan tíma þar en færði mig svo yfir í Keflavík. Ég er búin að prófa öll félögin á Suðurnesjum og er núna með í því að starta liði í Njarðvík,“ segir Dagmar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað ert þú búin að vera lengi viðloðandi starfið hjá Njarðvík?

„Ég byrjaði að þjálfa hjá Njarðvík fyrir fimm árum síðan. Þá var ég með sjötta og sjöunda flokk stelpna og það var ofboðslega skemmtilegt. Ég hef bara verið að þjálfa stelpur,“ segir Dagmar.

„Stefnan var tekin á að fylla flokkakerfið og byrja svo með meistaraflokk. Þannig að þetta var alltaf planið hjá Njarðvík. Núna erum við komin með áttunda og upp í þriðja flokk og það voru stelpur úr þriðja flokki að keppa með okkur um helgina sem stóðu sig allar mjög vel.“

Framtíðin er bara björt í Njarðvík.

„Já, mjög svo. Það er í kringum hundrað stelpur að æfa, þannig að það verður flottur meistaraflokkur hjá okkur eftir nokkur ár, skipaður uppöldum leikmönnum. Það er stefnan. Þetta er mjög spennandi en það er fullt af efnilegum stelpum að koma upp hjá Njarðvík.“

Ungar og uppaldar hjá Njarðvík.

Erfitt að hætta

Hvenær hættir þú formlega að keppa?

„Ég lék síðast með Keflavík árið 2017 en svo blundar þetta alltaf í manni. Það er ekkert hægt að hætta, sérstaklega þegar maður lifir og hrærist í þessu endalaust – hvort það er sem leikmaður eða þjálfari.“

Eiginmaður Dagmarar er Þórir Rafn Hauksson en hann hefur verið við þjálfun hjá Njarðvík síðustu fimmtán ár og yfirþjálfari síðustu sex ár. Í sameiningu hafa þau hjónin unnið markvisst að því að byggja upp kvennaknattspyrnu hjá félaginu.

„Það var engin knattspyrna fyrir stelpur í Njarðvík svo við þurftum að gera eitthvað,“ segir Dagmar en þau eiga þrjár fótboltastelpur sem æfa allar með Njarðvík.

Dagmar og Þórir Rafn á hliðarlínunni í bikarleiknum við Grindavík.

Og snýst lífið bara um fótbolta hjá ykkur?

„Heyrðu, næstum því. Allir krakkarnir okkar eru í fótbolta líka, sú elsta er að verða fjórtán ára og er í fjórða flokki, næsta barn er að verða sjö ára og er í sjöunda flokki, svo er ein fimm ára og er í áttunda flokki.“

Þið eruð heldur betur að leggja til uppbyggingar kvennastarfs í Njarðvík.

„Jú, það er einmitt djókað með að við förum að vera komin með í ellefu manna lið. Þetta er komið fínt núna, við enduðum á stráknum. Hann er tíu mánaða.“

Hvernig verður svo framhaldið hjá ykkur? Njarðvík er dottið út úr bikarkeppninni en þið eruð varla hættar, er það?

„Nei, nei. Það eru alltaf æfingar á fimmtudögum hjá okkur. Það er fyrir stelpur sem eru ekki tilbúnar að æfa sex sinnum í viku, bara létt og skemmtilegt – svona bumbubolti. Ég lít á þetta sem samfélagslegt verkefni sem við erum að standa fyrir hérna í Reykjanesbæ. Konur af svæðinu geta komið til okkar og æft einu sinni til tvisvar í viku í góðum félagskap.

Stefnan er svo sett á æfingaleiki í sumar við svona B-lið úr bænum. Ætli við tökum ekki svona einn, tvo æfingaleiki, höldum áfram að æfa og svo er það bikarinn aftur á næsta ári. Planið er svo að senda lið til þátttöku á Íslandsmótið 2025.“

Frá æfingu meistaraflokks kvenna.

Tekið vel á móti þeim sem vilja dusta rykið af skónum

Dagmar bendir á að Reykjanesbær geti hæglega haft tvö kvennalið, svæðið sé það stórt. „Stelpur sjá þá að þær geta haldið áfram þótt þær séu ekki að æfa í hæsta gæðaflokki, þær þurfa ekki að hætta og geta haldið áfram og æft með okkur í Njarðvík.“

Ég sé að það eru stelpur í liðinu sem koma úr Vogum, eru þetta annars allt stelpur úr Reykjanesbæ?

„Já, héðan og úr Garðinum líka – en þetta eru allt stelpur af Suðurnesjum.“

Geta stelpur sem langar að æfa fótbolta þá haft samband eða jafnvel bara mætt á æfingu hjá ykkur?

„Já, bara velkomið. Það eru allar velkomnar, alltaf gaman að fá fleiri. Við höfum verið að mæta svona tuttugu stelpur á æfingar. Það er bara skemmtilegra að fá fleiri. Ef einhverjum langar að dusta rykið af skónum og mæta á æfingu þá er það bara velkomið. Það er engum vísað frá.“