Meistarabragur á Njarðvík
Njarðvíkingar sýndu sannkallaða meistaratakta í sigurleik gegn KR í kvöld. Lokatölur voru 92-69 eftir að Njarðvík rúllaði yfir gestina í Ljónagryfjunni og hafa þeir því unnið fyrstu þrjá leiki sína.
Þeir byrjuðu vel og náðu 12 stiga forystu eftir fyrsta leikhluta en þá komust KR-ingar betur inn í spilið og söxuðu lítillega á muninn fyrir hálfleik þar sem staðan var 46-37. í þriðja leikhluta minnkaði munurinn á liðunum enn, en þegar liðin mættu á gólfið í lokafjórðunginn var aldrei spurning hvort liðið var betra. Gestirnir voru kafsigldir og greinilegt er að brotthvarf Troy Wiley hefur ekki haft nein áhrif á leik Njarðvíkinga.
Allt Njarðvíkurliðið var að leika vel en Páll Kristinsson var þeirra stigahæstur. Hann skoraði 21 stig, en einnig er vert að geta framlags Jóhanns Árna Ólafssonar sem setti 14 stig á 17 mínútum og nýtti skot sín afar vel.
Hjá KR var Cameron "Hættur við að hætta" Echols allt í öllu og skoraði 30 stig.