Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Meiðsli Sveindísar ekki eins alvarleg og óttast var
Sigurmarki Sveindísar í leik Kristianstad gegn Djurgården fagnað. Mynd af vef Kristianstad (kdff.nu)
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 3. maí 2021 kl. 18:36

Meiðsli Sveindísar ekki eins alvarleg og óttast var

Síðasta föstudag var framherjinn Sveindís Jane Jónsdóttir borin meidd af velli eftir um fjörutíu mínútna leik í viðureign Kristianstad og Växjö DFF í sænsku úrvalsdeildinni.

Þegar Sveindís meiddist festist annar fóturinn á henni í gervigrasinu og snerist illa upp á hnéið á henni. Mjög var óttast að um krossbandameiðsli væri að ræða en eftir að hafa undirgengist rannsóknir og farið í segulómun í dag kom í ljós að meiðslin eru ekki eins alvarlega og útlit var fyrir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sveindís Jane, sem er samningsbundin Wolfsburg í Þýskalandi og á lánssamningi hjá Kristianstad, hefur farið ljómandi vel af stað í sænsku úrvalsdeildinni. Sveindís skoraði strax í sínum fyrsta leik með félaginu, sá leikur var gegn Alingsås FC og fór 1:1. Í annarri umferð sigraði Kristianstad lið Djurgården 2:1 en þá átti Sveindís stoðsendinguna í fyrra markinu og skoraði sjálf sigurmarkið. Ljóst er að skarð er hoggið í hóp Kristianstad sem nú situr í öðru til þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar en Kristianstad vann leikinn gegn Växjö DFF.

Í frétt á vefsíðu Kristianstad er haft eftir Marie Ramlund, lækni félagsins, að meiðsli Sveindísar séu sem betur fer ekki eins alvarleg og óttast var. Líklegt er þó að Sveindís Jane Jónsdóttir geti verið frá keppni í um sex vikur.